135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

niðurstaða PISA-könnunar 2006.

[13:39]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við viljum yfirleitt bera okkur saman við önnur lönd eins og eðlilegt er og við vitum að við stöndum mjög vel í heilbrigðismálum en við stöndum höllum fæti í menntamálum. Fyrr í mánuðinum var umfjöllun í Fréttablaðinu um skólamál þar sem fram kom að okkur hefur hrakað verulega í menntamálum á síðustu árum samkvæmt PISA-könnuninni. Þetta er mikið áfall og afar slæmar fréttir en niðurstaða PISA-könnunarinnar árið 2006, um færni 9. og 10.-bekkinga í stærðfræði, náttúrufræði og lesskilningi, voru mjög mikil vonbrigði. Könnunin var gerð í 57 löndum og reyndist Ísland miðlungsþjóð hvað varðar árangur en efst þegar kemur að fjárútlátum í málaflokkinn. OECD gagnrýndi yfirvöld í kjölfarið og benti á að árangurinn gæti ekki talist ásættanlegur miðað við að Ísland eyddi meira fjármagni en nokkur önnur þjóð innan OECD á hvern nemanda.

Ísland tók þátt í sams konar könnun árið 2001 og sýndu niðurstöðurnar árið 2006 að nemendum hafði hrakað á tímabilinu í öllum greinum. Okkur hafði hrakað í öllum greinum frá 2001 til 2006. Það er því eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra hafi áhyggjur af þessu og skoði kannski eigin rann varðandi þetta mál. Fram kom í umræddri umfjöllun í Fréttablaðinu að hæstv. menntamálaráðherra væri að bíða eftir svörum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandinu, Heimili og skóla og fleiri áður en brugðist yrði við. Í ljósi þess að við tökum þessa stöðu mjög alvarlega, þegar okkur hrakar svona í menntamálum í landinu — við erum að reyna að sækja fram en niðurstaðan er þveröfug, okkur hrakar — er eðlilegt að heyra hvað hæstv. menntamálaráðherra hefur um þetta að segja. Fara þessi svör að skila sér og hvenær megum við vænta einhverra viðbragða af hálfu hæstv. ráðherra?