135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

lengd viðvera í grunnskóla.

[13:46]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv forseti. Á liðnum árum hafa flest sveitarfélög boðið upp á lengda viðveru eða einhvers konar frístundaheimili eða skóladagvist. Þessi þjónusta hefur einkum verið fyrir sex til níu ára börn og er til að tryggja samfellda og örugga viðveru barna í framhaldi af daglegum skólatíma á meðan foreldrar eru í vinnu.

Í slíkri lengdri viðveru á frístundaheimili eða í skóladagvist er oftast boðið upp á blöndu af skipulegum og frjálsum leik. Oft er boðið upp á heimanám og bæði úti- og inniveru. Dvalartíminn getur verið mismunandi, frá tveimur upp í fjórar klukkustundir á dag til viðbótar við lögboðna skólagöngu.

Formin eru sem sagt mörg og breytileg sem og aðstaðan sem börnunum er búin. Þessi þjónusta er komin til að vera. Aðsóknin er vaxandi og treyst er á þetta úrræði af foreldrum og mikilvægt að geta búið börnunum öruggan og góðan dvalarstað í stað þess að þau þvælist ein um. Lyklabörnin eru sem sagt að mestu horfin.

Nokkur umræða varð í blöðum í liðinni viku þegar dagblaðið 24 stundir vakti máls á úttekt á húsnæði félagsmiðstöðva og frístundaheimila í Reykjavík og fram kom gagnrýni á öryggisþætti og aðbúnað á nokkrum stöðum. Vitað er að þessi þjónusta er mjög misgóð. Aðstaðan er breytileg. Mönnun er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og menntun starfsfólks einnig. Víða hafa starfsmenn enga uppeldismenntun.

Foreldrasamtökin Heimili og skóli hafa sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga, menntamálaráðuneyti og síðast samgönguráðuneyti sem sveitarfélagaráðuneyti erindi þar sem lýst er eftir ábyrgðarskyldu sveitarfélaga og ítrekað mikilvægi þess að ávallt fari fram mat og eftirlit með gæðum þjónustunnar og óskað hefur verið eftir því að menntamálaráðherra setji reglugerð um starfsemi lengdrar viðveru.

Í grunnskólafrumvarpinu sem nú er til umfjöllunar í menntamálanefnd þingsins er einmitt fjallað um lengda viðveru og þar er vísað á að settar verði reglur um aðbúnað og starfshætti en þó ekki kveðið skýrar á um það. Það eru einstök sveitarfélög sem eiga að gera þetta.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra, því að ég tel brýnt að þessi mál séu skoðuð frekar: Hyggst hæstv. menntamálaráðherra beita sér fyrir því að sett verði lög eða viðmiðunarreglur varðandi lágmarksaðstöðu og starfsmannahald í skóladagvistun (Forseti hringir.) eða frístunda- og tómstundaheimilum?