135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

endurskoðun forsendna fjárlaga.

[13:56]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að sjálfstæðismenn þurfi að fara tala betur saman á þeim ólgutímum sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi. Varaformaður fjárlaganefndar Alþingis kemur í ræðustól í gær og segir að það sé nauðsynlegt að endurskoða forsendur fjárlaga. Hæstv. fjármálaráðherra, sjálfstæðismaðurinn Árni M. Mathiesen, kemur svo í ræðustól Alþingis daginn eftir og segir að það sé ekki ástæða til að endurskoða forsendur fjárlaga.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnarliðið og sjálfstæðismenn eru út og suður í umræðunni um efnahagsmál. Úrræðaleysið er algjört. (Gripið fram í.) Erlend matsfyrirtæki hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir framtaksleysi í (Gripið fram í.) efnahagsmálum þjóðarinnar, hafa gagnrýnt það að við vitum ekkert hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera til að bregðast við hæstu verðbólgu til 18 ára, hæstu stýrivöxtum í heimi, hækkandi skuldum heimilanna (Forseti hringir.) og minnkandi kaupmætti almennings.

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hún talar út og suður úr (Forseti hringir.) ræðustól Alþingis dag eftir dag og við hljótum að krefjast þess, hæstv. forseti, að (Forseti hringir.) við fáum einhver raunhæf svör frá ríkisstjórninni þegar kemur að svo grafalvarlegum (Forseti hringir.) málum er snerta efnahag þjóðarinnar.