135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[13:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Undanfarið hafa menn rætt um álver á Grundartanga, Húsavík og víðar og hefur hæstv. umhverfisráðherra þá sagt að við séum komin upp í þak varðandi íslenska ákvæðið og getum ekki virkjað meir.

Þann 23. janúar 2008 sagði hæstv. ráðherra, með leyfi frú forseta, og miðaði þá við losun af bílaumferð á Íslandi:

„Losun frá kolaorkuveri sem mundi knýja álver jafnstórt álveri Fjarðaáls þegar það verður komið í fulla vinnslu mundi losa um sexfalt meira en því nemur.“

Kárahnjúkar spara mannkyninu sem sagt sexfaldan útblástur allrar bílaumferðar á Íslandi. (Gripið fram í.)

Spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru:

1. Þar sem meginmáli skiptir hvort rafmagn er framleitt með kolum eða hreinni vatnsorku á Íslandi eða gufu gildir þá ekki það sama um stækkun álvers á Grundartanga og álverið við Húsavík og gildir um Fjarðaál?

2. Getur verið að það þak sem hæstv. umhverfisráðherra nefnir sé öndvert hagsmunum mannkynsins? Að íslenska ákvæðið sé öndvert hagsmunum mannkynsins?

3. Getur hæstv. umhverfisráðherra ekki sagt umheiminum frá þessu og boðist til að hverfa frá íslenska ákvæðinu, hverfa frá þakinu sem hindrar okkur í að virkja umhverfisvæna orku fyrir mannkynið? Getur hæstv. umhverfisráðherra ekki boðist til að virkja með hagsmuni alls hnattarins í huga og mannkynsins alls? (Gripið fram í.)

Ég er ekki endilega að hugsa um álver. Þó að þessa dagana sé ljúft til þess að vita að álútflutningur tvöfaldist að verðgildi miðað við árið í fyrra, og ekki slæmt í stöðunni eins og hún er núna, vil ég ekki endilega að við bindum okkur við álver. En ég held að það sé mjög mikilvægt að við nýtum íslenska orku, (Forseti hringir.) sem er umhverfisvæn, til hagsbóta fyrir mannkynið.