135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[14:08]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil hafna því algjörlega fyrir hönd okkar ráðherranna að af okkar hálfu sé einhver lausung komin á þinghaldið. Hér eru ráðherrar eins og eftir er óskað, hér eru nægilega margir ráðherrar til þess að svara fyrirspurnum.

Það kann vel að vera, og ég skil að hv. þingmaður telji það, að sérstakar ástæður séu uppi til þess að óska eftir því að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra. Alltaf geta komið upp þær aðstæður í lífi sérhvers manns, líka ráðherra, að þeir forfallist með litlum fyrirvara.

Ég hafna því aftur á móti algjörlega að eitthvað minna sé um það, og spyr hvort hún hafi einhverja tölfræðilega samantekt um það, að ráðherrar séu minna hér en áður. Ég veit ekki betur en að í gær, þegar ég hélt að mér þótti margar glæsilegar ræður í svörum við hv. þingmenn Vinstri grænna, hafi þeim þótt helst til mikið af ráðherrum í húsinu. Ég hafna því algjörlega að ráðherrar séu ekki hér til þess að svara fyrirspurnum. (Gripið fram í: Hvar eru þeir?) Það er frumskylda ráðherra að mæta í þingið til þess. (Gripið fram í: Hvar eru þeir?)

Hér voru fimm ráðherrar, það er nóg í dag. (Gripið fram í.) Ég kom hér, var (Gripið fram í: Þú varst ekki auglýstur.) Ég var víst auglýstur. Ég var beðinn um að koma hér fyrir tveimur dögum, ég átti ekki að vera hér en ég kom. Ég geri allt fyrir þingmenn Vinstri grænna.