135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

ríkisábyrgð til handa deCODE Genetics Inc.

570. mál
[14:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um ríkisábyrgð handa deCODE Genetics Inc., þetta er allt á ensku, og fyrirspurnin er stutt:

Mun ráðherra beita sér fyrir afnámi ríkisábyrgðar á skuldabréfum útgefnum af deCODE Genetics Inc., sbr. lög nr. 87 frá 15. maí 2002?

Hæstv. forseti. Mér var skapi næst að fresta þessari fyrirspurn þar sem í mínu hjarta, og flestra okkar hér, brenna aðrar spurningar en þessi í dag. Eftir sem áður er þetta liður í því að fylgja málum eftir og skoða hvort við séum með í gildi lög sem eru þarflaus og úrelt eða mætti afnema. Spurningin er sett fram samhliða fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um endurskoðun laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Eins og við vitum eru í gildi lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði sem Íslensk erfðagreining er umsjónarmaður yfir. Sá gagnagrunnur hefur aldrei litið dagsins ljós og má segja að málið sé þar með fallið um sjálft sig. En ríkisábyrgðin stendur.

Mikil átök voru um hugmyndafræðina á bak við miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Vil ég nefna að samkvæmt þeim lögum, sem eru frá 15. maí 2002, samþykkti Alþingi sérlög um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast skuldabréf, allt að 200 milljónir bandaríkjadollara, vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., dótturfélags deCODE. Það er meginregla að ekki sé unnt að afnema ríkisábyrgð sem komin er til framkvæmda með tilliti til lögmætra væntinga ábyrgðarþega og þriðja aðila, þ.e. þeirrar lánastofnunar sem veitt hefur lán sem ríkisábyrgðinni er ætlað að dekka.

Framangreind lög eru hins vegar einungis heimildarlög og hafa aldrei komið til framkvæmda eins og ég sagði hér áður.

Samkvæmt viðtali við forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar hefur hann og Íslensk erfðagreining frekar haft ama af umræddri ríkisábyrgð en hitt (Forseti hringir.) og talið að hún þvældist frekar fyrir fyrirtækinu en að hún gerði því eitthvert gagn.