135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest.

568. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Flestir héldu reyndar að um aprílgabb væri að ræða þegar visir.is skýrði frá því um hádegisbil 1. apríl að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hygðust, ásamt fríðu föruneyti, taka á leigu sérstaka einkaþotu til þess að fara á NATO-fund í Rúmeníu. Fréttin vakti nokkuð hörð viðbrögð, leitað var skýringa og ýmsar voru gefnar. Óverulegur munur á kostnaði, mjög góður díll, styttri fjarvera ráðherra, þetta er meðal þess sem aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra sagði. Vísað var til þess að oddvitarnir mundu vegna þessa háttalags ná að sitja fund með Seðlabankanum og þá fyrst varð þjóðin sannfærð um að um aprílgabb væri að ræða því að eins og menn vita hefur ekki mikið verið um fundarhöld milli ríkisstjórnar og Seðlabanka og það þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum.

En þann 2. apríl var þessi frétt enn í fullu gildi því að þann dag fóru ráðherrarnir í einkaþotu við ellefta mann og komu til baka að kvöldi þess fjórða eftir að hafa lagt blessun Íslands yfir endurnýjað vígbúnaðarkapphlaup í Evrópu en til þess var leikurinn í Búkarest gerður.

Sagan er ekki öll sögð því að þennan sama dag, 2. apríl, sagði ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins að kostnaður við þessa einkaþotuferð yrði ekki gefinn upp.

Hann sagði orðrétt í viðtali við Vísi , frú forseti:

„Við gerðum heiðursmannasamkomulag við leigusalann um að gefa ekki upp kostnaðinn og stöndum við það.“

Þessi sami fjölmiðill hafði þá komist að þeirri niðurstöðu að umframkostnaður án afsláttar væri um 6 millj. kr. Sú sem hér stendur gat ekki orða bundist á þeim tíma vegna hins nýja stíls sem upp var tekinn og lagði því fram þá fyrirspurn sem hér er á dagskrá og reyndar aðra sem hefur beðið svars um hríð og er að finna á þskj. 861, og er spurning um utanferðir allra ráðherra í ríkisstjórn Geirs Haardes.

Frú forseti. Spurningum mínum á þskj. 877 er ætlað að leiða í ljós hver heildarkostnaður var við þessa för í einkaþotunni, leiða í ljós samanburð við ódýrasta farþegaflug, hvernig komist var að þeirri niðurstöðu að velja dýrari ferðamáta og við hvað var þá miðað í útreikningum, hvort umhverfislegur kostnaður vegna útblásturs þotunnar var tekinn með í reikninginn og síðast en ekki síst, frú forseti, hvort ráðherra telur að hægt sé að gera heiðursmannasamkomulag um að leyna opinberum útgjöldum og samningum þar um.