135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest.

568. mál
[14:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil segja við hæstv. forsætisráðherra að mér þykir tvennt gott við svar hans. Í fyrsta lagi það að hann skuli viðurkenna þau mistök að hafa ekki gefið upp kostnaðinn við ferðina strax og í öðru lagi að hann skuli segja að þetta sé algjör undantekning. Það verður að vera það. Þegar við horfum fram á þrengingar í efnahagslífi er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þær skýringar sem hún fékk að þetta væri svo lítill kostnaðarauki. Þá var reyndar talað um milljón en ekki 200 þúsund eins og hæstv. ráðherra segir okkur að kostnaðaraukinn hafi verið miðað við að farið hefði verið í almennu áætlunarflugi. Ef við settum fram slík rök í hverri ferð, að kostnaðaraukinn sé svo lítill, ein milljón, að það skipti ekki máli til eða frá, hvaða skilaboð erum við þá að senda út til þjóðarinnar?

Þetta er mjög alvarlegt mál, ég held að þjóðin hafi litið það mjög alvarlegum augum og ég held að hæstv. forsætisráðherra verði að tryggja þjóðinni og okkur það að þetta verði alger undantekning.