135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest.

568. mál
[14:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér fundust svör hæstv. forsætisráðherra afar skýr og ég tek eftir því að hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur finnst það líka og þakkar honum þau.

Ég kem hins vegar upp vegna þess að hv. þm. Jón Bjarnason kemur hér og slær keilur með því að segja að honum og þjóðinni hafi blöskrað utanlandsferðir ráðamanna. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera að honum hafi blöskrað það. Það er einfaldlega þannig að sumum ráðherraembættum fylgja meiri ferðalög en öðrum. Hæstv. forsætisráðherra þarf eðli starfsins vegna oft að ferðast til útlanda, m.a. til þess að semja við önnur ríki. Sama gildir t.d. um hæstv. utanríkisráðherra.

Ég minnist þess að þegar ég var óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu tók ég að mér trúnaðarstörf fyrir þingið, ég sat í Evrópuráðinu. Mér voru falin trúnaðarstörf þar. Það kallaði á töluvert margar ferðir af minni hálfu. Ég spyr: Hvar er formaður VG í dag? Hvar er formaður þingflokks VG? Jú, þeir eru báðir staddir erlendis, þeim hafa verið falin trúnaðarstörf af hálfu þingsins og ætli það útheimti ekki í tilviki formanns VG einar 14 til 15 ferðir á ári. Ekki amast ég við því, (Forseti hringir.) hann gerir það á vegum þingsins. Sum störf, í okkar veröld eins og hún er í dag, útheimta einfaldlega ferðalög. Því ætti hv. þingmaður að gera sér grein fyrir og (Forseti hringir.) skammast sín fyrir að gera það tortryggilegt.