135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

kostnaður við flug í einkaþotu til Búkarest.

568. mál
[14:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra þessi svör. Það er ekki svo að þau séu mjög skýr eins og hæstv. iðnaðarráðherra vildi vera láta hér áðan, en þau eru ágæt engu að síður.

Samstarf og samskipti á alþjóðavettvangi eru að sönnu mikilvæg og útheimta svo sannarlega ferðalög, frú forseti. En það er engin afsökun fyrir því að ausa út fé án þess að hugsa sig um og ég spyr: Hvar er hin hagsýna húsmóðir í Samfylkingunni ef svo er komið fyrir henni?

Forsætisráðherra endurtekur hér fréttatilkynningu sína frá 8. apríl og er það nýmæli að fyrirspurnum þingmanna skuli svarað með fréttatilkynningum og síðan hér í þingsal löngu síðar. Niðurstaða hæstv. ráðherra er á þann veg að þetta sé allt í góðu lagi. Ég er honum einfaldlega ekki sammála um það. Það er alveg ljóst að þetta er eitt mesta PR-klúður í sögu ríkisstjórnarinnar og þótt víðar væri leitað. Ríkisstjórnin er í tómu tjóni með þann nýja stíl sem hún kynnti fyrir þjóðinni því að þjóðinni einfaldlega ofbauð.

Margir telja nefnilega að það sé hvorki upphæðin sem um er að tefla né leyndin sem átti að hafa sem sé aðalmálið heldur hitt að brotið er í blað í því hvernig ráðamenn þjóðarinnar hegða sér. Við höfum að jafnaði lagt áherslu á það, Íslendingar, að landið okkar væri þannig statt að stutt væri í kjörna fulltrúa og þeir væru í vissum skilningi ekki bara fulltrúar almennings heldur hluti af þessum sama almenningi. Með þeim nýja stíl sem þarna var kynntur til sögunnar voru oddvitar ríkisstjórnarinnar í huga þjóðarinnar að segja sig frá þeim samningi og ganga í björg með þotuliðinu.