135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

Grænlandssjóður.

569. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og tek undir þau sjónarmið hans að eðlilegt sé að horfa til þess að efla eigið fé sjóðsins einmitt vegna þess að ekki tókst betur til en svo með að uppfylla ákvæði laganna frá sínum tíma. Að mínu viti er ekki lagaskylda fyrir ríkissjóð núna að greiða þetta framlag, lagaskyldan kvað á um framlögin á þessum árum og þau eru liðin. Ég skil því lagatextann á þann veg að ekki sé hægt að krefja ríkissjóð um þessa seinni greiðslu, en mér þætti að mörgu leyti eðlilegt að ríkissjóður legði til sjóðsins frekara fé hvort sem það verður í samræmi við þessa fjárhæð framreiknaða eða aðra.

Tilefni kann að vera til þess að endurskoða hlutverk Grænlandssjóðs og að hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því að málin verði tekin upp, lögin um hann endurskoðuð og hlutverk hans og verkefni. Eins og hæstv. ráðherra nefndi er ekki víst að sjóðurinn sjálfur sé alltaf eðlilegasti farvegur fyrir þau verkefni eða málefni sem menn hafa í huga og lúta að samskiptum við Grænland. Ég hef t.d. sérstaklega í huga samskipti milli Íslands og Grænlands á ýmsum sviðum viðskipta. Ísland er jú það land sem er næst Grænlandi og Vestfirðir standa austurströnd Grænlands næst, Ísafjarðarhöfn og Ísafjarðarflugvöllur eru ákjósanlegur staður fyrir samgöngur milli Grænlands og annarra landa.