135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:01]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Upp er komin afar alvarleg staða á Landspítalanum. Um miðnætti fara um 100 skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar úr störfum sínum og neyðarástand mun skapast með það sama.

Mig langar í upphafi til að gera aðeins grein fyrir þeim mikla óróleika sem ríkir núna innan LSH almennt. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið út mjög brattar yfirlýsingar um hvað eigi að gera hér í heilbrigðismálum á næstunni. Hæstv. forsætisráðherra sagði á sínum tíma að það ætti að gera miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu og þær breytingar hefði ekki verið hægt að gera með neinum öðrum en Samfylkingunni, þ.e. ekki Framsóknarflokknum, ekki Vinstri grænum og ekki Frjálslyndum. Miklar breytingar fram undan.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka ályktað um að það eigi að fara út í einkavæðingu á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála. Þannig er landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins. Það er einkavæðing. Það stendur ekki einkarekstur, það stendur einkavæðing.

Það er búið að setja upp nefnd sem Vilhjálmur Egilsson stýrir og hún á að fara yfir kjarnastarfsemi Landspítalans og skilgreina hana. Ég giska á að hún muni skilgreina hana mjög þröngt og svo á væntanlega að reyna að koma öllu sem ekki er kjarnastarfsemi út á einkamarkaðinn ef ég þekki þessar tilhneigingar rétt hjá sjálfstæðismönnum.

Hæstv. forsætisráðherra hefur líka sagt að ekki hefði verið hægt að gera breytingar á svokölluðum sjúkratryggingum nema í samstarfi við Samfylkinguna, þetta hafi verið rætt við Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Það er alrangt, þetta var aldrei rætt. (Gripið fram í.)

Það hefur líka komið fram að hugsanlega eigi að koma Landspítalanum í hlutafélagaform. Bæði hefur Vilhjálmur Egilsson komið því á framfæri opinberlega, líka Björn Zoëga, annar settur forstjóri spítalans, og fleiri. Forsætisráðherra hefur ekki neitað því. Það er mjög mikið óöryggi og mikill óróleiki sem ríkir á spítalanum. Ofan á þetta allt saman er búið að svæla frá forstjórann sem var og hann hefur lýst því vel í fjölmiðlum hvernig það var gert. Ekkert samráð var haft við hann hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er búið að setja tvo forstjóra yfir spítalann til fimm mánaða, bráðabirgðaforstjóra, gott fólk sem er að gera sitt besta en það er greinilegt að það er búið að veikja forustu spítalans mjög mikið.

Í öllum þessum óróleika er verið að gera breytingar á vaktakerfi skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga, breytingar sem fela í sér talsverðar breytingar sem skerða kjör þessa hóps. Þessi hópur átti frekar von á því að kjörin yrðu bætt en skert og ég vil minna á að í stjórnarsáttmálanum stendur að það eigi að minnka óútskýrðan launamun kynjanna hjá ríkinu, stefnt að því að minnka hann um helming á kjörtímabilinu, og það eigi sérstaklega að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Það er þessi stétt. Hér er farið í ranga átt.

Það er verið að tala um vaktakerfið og að í samræmi við EES-tilskipanir þurfi að breyta því. Það er rétt að skoða það, mjög eðlilegt að það sé skoðað. En eins og staðið hefur verið að málunum sætta svæfingar- og skurðhjúkrunarfræðingar sig ekki við framkomu heilbrigðisyfirvalda og forustu Landspítalans þegar þetta er kynnt. Það er kynnt að það eigi að reyna að fresta þessum vaktabreytingum en þá er ekki neitt gefið eftir. Á sama tíma tjá sig báðir settir forstjórar, annar segir: Það á ekkert að breyta vaktafyrirkomulaginu, ekki neitt. Það var sagt opinberlega á laugardaginn. Hinn setti forstjórinn segir: Þessi tími á að nýtast í að skoða þjálfun á þessum hjúkrunarfræðingum. Mjög lítið er gefið í skyn að það eigi eitthvað að hlusta á sjónarmið hjúkrunarfræðinganna. Það er mikil harka í málinu. Hjúkrunarfræðingarnir hafa ákveðið að standa við sitt og ganga út á miðnætti.

Ég tel þetta mjög alvarlegt, og ekki líklegt að hægt sé að fá erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa. Það er ekki líklegt að sjúkrahúsin hér í grenndinni getið tekið við þessu. Það getur enginn tekið við þessu. Hér mun strax hlaðast upp biðlisti og það verður einungis farið í að sinna neyðaraðgerðum. Þetta verður óbærileg staða.

Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ekki sé mikið óráð að grípa til lagasetningar við þessar aðstæður. Hve lengi telur hæstv. ráðherra að hann geti verið án 100 svæfingar- og skurðhjúkrunarfræðinga að störfum á Landspítalanum? Ætlar ráðherra að gefa út einhvers konar yfirlýsingu (Forseti hringir.) um að hann vilji hlusta á sjónarmiðin til að freista þess að ná þessum hópi til baka? Hann verður að gera það, virðulegur forseti.