135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Vissulega getur verið eðlilegt að ræða vinnuskipulag og vinna þarf að sameiginlegum lausnum. Vinnuálagið er vissulega mikið á Landspítala og það er breytilegt.

Málið er hins vegar komið í þann farveg að í því er greinilega mikil kergja og vantraust milli aðila. Þegar mál eru komin í hnút þarf að brjótast út úr því og finna því vegferð. Ég held að menn ættu að skoða það í fullri alvöru, hæstv. heilbrigðisráðherra sérstaklega, að fá einhvern utanaðkomandi til að koma að málinu og leggja þar gott til, til þess að leysa þá deilu sem menn standa frammi fyrir. Hún hlýtur að vera leysanleg eins og allar aðrar deilur, það endar með því að menn leysa deilur. Ef menn þurfa að taka eitthvað til baka af orðum sínum og hörðustu ákvörðunum verða menn bara að gera það þegar málin eru komin í hnút.

Ég beini þeim tilmælum til hæstv. heilbrigðisráðherra að hann horfi til þess að fá einhvern sem aðilar treysta til að koma að deilunni, leggja gott til málanna og leysa hana og ná þá fram þeirri stöðu að uppsögnum sé frestað í því ljósi að menn séu að ná saman um niðurstöðu máls en ekki setja fyrir framan fólkið fullyrðingar um það að eitthvað skuli gerast 1. október, eins og yfirlýsingar eru nú um. Ég held að menn verði allir að brjóta odd af stífni sinni og komast í réttan farveg með þetta mál.