135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Bara svo að það komi hér fram er umræddur fundur í heilbrigðisnefnd að beiðni hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við erum þakklát fyrir að það skuli vera orðið við honum. Að öðru leyti vísa ég ástandinu sem ríkir nú á Landspítala alfarið á hendur hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin öll sem verður að standa ábyrg fyrir því sem þar er að gerast.

Hæstv. ráðherra talar um að deilur um kaup og kjör séu ekki á borði hæstv. ráðherra. Hann segir að ekki sé um sparnaðarráðstöfun að ræða. Hann segir að leysa eigi málið í samvinnu við starfsmenn. Síðast í gærkvöldi horfðum við á talsmenn hjúkrunarfræðinga í sjónvarpi segja: Það hefur ekkert verið talað við okkur.

Við fáum viðtal við hæstv. ráðherra í útvarpsfréttum í gær þar sem hann er spurður hvort hann hafi ekki haft tök á því að beita starfsmannalögunum og fresta uppsögnunum, fresta því að þær taki gildi. Það kemur upp úr kafinu að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki hugmynd um 37. gr. starfsmannalaga, veit ekkert um hvað fréttamaðurinn er að tala. Hann hafði í hendi sinni að fresta áhrifum uppsagnanna um allt að sex mánuði ef hann hefði haft döngun og dug í sér til að gera það, ef hann hefði bara axlað ábyrgð í málinu. Það hefur hann ekki gert, hæstv. forseti. (Gripið fram í.)

Það er ljóst að taka þarf undir með þeim sem hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að hér sé talað af vankunnáttu um störf hjúkrunarfræðinga. Það lýsir sér í yfirlýsingu frá hjúkrunarfræðingum á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þar sem fram kemur að það hafi verið talinn raunhæfur möguleiki, af íslenskum stjórnvöldum og stjórnendum Landspítala, að senda hóp hjúkrunarfræðinga til útlanda í skyndiþjálfun en skurð- og svæfingahjúkrun er eins og hálfs árs sérfræðinám eftir fjögurra ára nám hjúkrunarfræðinga.

Það verður líka að taka fram að vinnutímatilskipunin er ekki sett til þess að skerða kjör starfsmanna eða launþega (Forseti hringir.) heldur til að vernda fólk við erfiðar aðstæður. Ekki má (Forseti hringir.) beita vinnutímatilskipuninni fyrir sig á rangan hátt eins og mér finnst hafa borið á bæði hjá hæstv. ráðherra og talsmönnum sjúkrahússins.