135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:25]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérstakt að við skulum hér í þingsal vera að ræða mál sem lúta að vinnuskipulagi á ákveðnum vinnustað í landinu. Það undirstrikar hins vegar mikilvægi Landspítala fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu og séreðli þessa vinnustaðar. Það er því mikið áhyggjuefni hvernig nú er komið málum.

Ég get ekki fallist á það þegar menn höfða til þess að þegar stórar umönnunarstéttir, sem að stærstum hluta eru skipaðar konum, eiga í hlut eigi annað um þær að gilda en aðrar stéttir og að þær stéttir eigi með einhverjum hætti að sýna aðra ábyrgð á aðstæðum sem upp geta komið við erfiðar kjaradeilur. Allar stéttir eiga rétt á því að koma fram með kröfur sínar og allar stéttir eiga rétt á því að á þær sé hlustað.

Það virðist sem mikill misbrestur hafi orðið á því að aðilar hafi náð saman á þessum vettvangi og ég tel óskaplega mikilvægt að menn geri allt sem mögulegt er til þess að ná saman meðan enn er tími til. Jafnframt þarf að leita tímabundinna leiða til að þróa vinnufyrirkomulag sem allir geta lifað við. Það er eðli þessarar deilu að hún verður aldrei leyst nema með samkomulagi milli hjúkrunarfræðinga og geislafræðinga annars vegar og yfirstjórnar spítalans hins vegar. Þegar menn vita að samkomulag er forsenda lausnar eiga menn að einhenda sér í að ná því samkomulagi og setja sér jafnframt að standa ekki upp frá borði fyrr en því er lokið.