135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á stundum sem þessum verða stjórnmálamenn að hafa í huga að heilbrigðisþjónusta er sett á fót fyrir almenning í landinu. Hún er sett fram og hún er veitt til þess að hjúkra sjúkum þannig að veikir og aðrir sem þurfa á aðstoð að halda og notfæra sér þjónustuna geti gengið að henni og fengið úrlausn mála sinna. Þess vegna er mikilvægast að tryggja að ekki verði misbrestur á því og ekki rof í þessari þjónustu. Menn mega ekki gleyma sér í því að þetta er aðalatriði málsins, þjónustuna verður að veita.

Í þessu máli á hið fornkveðna við að þegar tveir deila veldur sjaldnast annar. Ég held að menn verði að hafa í huga að þegar komin er mikil kergja í mál og illindi á það sér aðdraganda, að því er forsaga sem hefur skapað þessa kergju, eitthvað sem sagt hefur verið hefur hlaðið upp spennu. Ef til vill hafa mönnum í yfirstjórn Landspítalans að einhverju leyti verið mislagðar hendur. Menn verða þá einfaldlega að fara yfir þau mál og greiða úr þeim. Það er þeirra verkefni, þess vegna eru þeir stjórnendur.

Að sama skapi verða starfsmenn í heilbrigðisþjónustu að hafa í huga að þeir bera ábyrgð og það er vissulega til marks um að þeir eru orðnir afar þreyttir á ástandinu þegar gripið er til uppsagna. En menn verða að hafa í huga, eins og hér hefur komið fram, að deila er aldrei leyst með því að annar aðilinn gangi í burtu. Hún verður því aðeins leyst að aðilar sem í hlut eiga tali saman.