135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:29]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fram kom hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að stjórnendur Landspítala hefðu tekið þessa ákvörðun í byrjun árs. Hæstv. ráðherra er að reyna að firra sig ábyrgð, reyna að nota gamla, góða teflon-trixið, vera einhvers konar teflon-ráðherra og vísa ábyrgðinni yfir á aðra.

Hæstv. heilbrigðisráðherra ber ábyrgð, þeir sem hafa völd bera líka ábyrgð, þeir geta ekki hlaupist undan því. Það er ljóst að starfsmennirnir hafa gefist upp á ástandinu, hjúkrunarfræðingar hafa gefist upp. Nýjustu skilaboðin í morgun frá öðrum bráðabirgðaforstjóranum, settum, eru þau að hann voni að hjúkrunarfræðingarnir geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir axla með þessum aðgerðum. — Aðgerðum, þetta eru lögmætar uppsagnir.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ber ekki hæstv. ráðherra ábyrgð, getur hann verið ábyrgðarlaus? Hvað telur hæstv. heilbrigðisráðherra að spítalinn þoli marga daga án tæplega 100 svæfinga- og skurðhjúkrunarfræðinga? Þarna fara fram 50–60 aðgerðir á dag. Það á bara að fara í neyðaraðgerðir, neyðarkeisaraaðgerðir, það á ekki að fara í almennar kvensjúkdómaaðgerðir, ekki í hjartaaðgerðir, það hleðst upp biðlisti strax. Hvað þolum við þetta í marga daga?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Ætlar hæstv. ráðherra að veita forustu Landspítalans svigrúm til að koma með yfirlýsingu um að tekið verði tillit til sjónarmiða starfsfólks? Mér fannst athyglisvert að heyra að fulltrúi Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, sagði einmitt þetta, tók undir þetta: Taka þarf tillit til sjónarmiða starfsfólks.

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að koma annaðhvort með skýra yfirlýsingu sjálfur eða veita Landspítalanum svigrúm til þess að koma með slíka yfirlýsingu (Forseti hringir.) þannig að hjúkrunarfræðingar sjái sér fært að stíga til baka.