135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

franskar herþotur.

[13:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. utanríkisráðherra eftir heræfingum eða lofteftirliti Frakka sem nú er að hefjast og spyrja í fyrsta lagi um kostnað í því sambandi. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi eru 200 millj. kr. áætlaðar í slík útgjöld, óþörf sem þau eru, og er þá gert ráð fyrir því að fjórum sinnum á ári í tvær til þrjár vikur í senn verði slíku loftrýmiseftirliti, eins og það heitir víst á fagmálinu, haldið uppi.

Nú kemur í ljós að franska sveitin á að vera hér í sex vikur og má þá ætla að kostnaðurinn verði á annað hundrað millj. kr. Þá er fyrsta spurningin: Er fjárlagaramminn þá þegar sprunginn og stefnir í framúrkeyrslu á þessum lið? Verður sótt um aukafjárveitingu í því skyni því að upplýst er að bæði Bandaríkjamenn og jafnvel Kanadamenn muni verða hér alllengi við sömu iðju í haust?

Í öðru lagi kemur fram í hinni beittu og gagnrýnu frétt ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að hlutverk frönsku sveitarinnar sé ekki aðeins að gæta loftrýmisins heldur einnig að stöðva óæskilega flugumferð. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hver er réttarstaða frönsku sveitarinnar þegar kemur út fyrir 12 mílna lofthelgina og er það skilningur utanríkisráðherra að hún geti stöðvað gegnumferð eða flug erlendra flugvéla jafnvel þó svo að þau flugför hafi ekki tilkynnt um komu sína hingað? Og það sem að sjálfsögðu er gagnrýnisvert: Hvaða heimildir kemur hin franska flugsveit til með að hafa í umboði íslenskra stjórnvalda að þessu leyti á hafsvæðum eða í loftrýminu utan 12 mílna lofthelgi Íslands en eins og kunnugt er nær fullveldisréttur Íslands að sjálfsögðu eingöngu til lofthelginnar upp að 12 mílna lögsögunni?

Í þriðja lagi vil ég spyrja: Þar sem frönsku sveitirnar eiga að vera vopnaðar, bera bæði skotvopn og flugskeyti, hefur ríkislögreglustjóri sett, í samræmi við 78. gr. laga um loftferðir, reglur um meðferð skotvopna, skotfæra og vopna í loftförum innan íslenskrar lofthelgi og hvernig eru þá þær reglur?