135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

franskar herþotur.

[13:39]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér var spurt um ýmis atriði sem kannski er ekki hægt að búast við að menn séu með á hraðbergi í óundirbúnum fyrirspurnum eins og t.d. það hvort ríkislögreglustjóri hefði sett reglur um meðferð vopna. Ég hygg líka að slík fyrirspurn eigi betur heima hjá dómsmálaráðherra enda heyrir ríkislögreglustjóri undir það ráðuneyti.

Hvað varðar þessa frönsku sveit sem hingað er komin þá er hún komin í samræmi við þá niðurstöðu sem fékkst á vettvangi NATO eftir að forsætisráðherra hafði óskað eftir því að NATO legði á það mat með hvaða hætti við þyrftum að halda úti eftirliti með lofthelgi okkar á Íslandi þannig að viðunandi væri. Niðurstaða NATO varð sú að við þyrftum að hafa ratsjáreftirlitskerfi sem væri tengt við NATINADS eftirlitskerfi NATO í Evrópu og síðan flugsveitir til eftirlits ársfjórðungslega, það mundi vera við hæfi. Eftir þessu er unnið.

Nú er komin hingað frönsk sveit eins og hér hefur réttilega komið fram. Ég held að það hljóti að teljast nokkur tíðindi að Frakkar séu komnir hingað með eftirlitssveit sína. Þetta er í fyrsta skipti sem aðrir en bandarískar sveitir hafa eftirlit með íslenskri lofthelgi og er reyndar liður í Evrópuvæðingu öryggis- og varnarmála okkar. Það merkilega við þetta er líka að Frakkar hafa hingað til staðið fyrir utan hermálanefnd NATO og ekki verið þátttakendur í því starfi.

Kostnaður, samkvæmt ramma fjárlaga í utanríkisráðuneytinu, við allt eftirlit í lofthelgi, er 200 millj. kr. og ekki er gert ráð fyrir því að fara fram úr þeim ramma.