135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

endurskoðun kvótakerfisins.

[13:44]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að gera skuli sérstaka athugun á reynslunni af fiskveiðistjórnarkerfinu og áhrifum þess á sjávarbyggðir landsins.

Annar af forustumönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, sagði nýverið að í ljósi skoðanakönnunar þar sem 68% vildu skoða aðild að ESB ætti þegar í stað að leita eftir þeim farvegi að tengjast Evrópusambandinu með aðild, enda væri slíkt ekki gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í ljósi þess að 72% landsmanna eru samkvæmt skoðanakönnun Gallups óánægð með kvótakerfið og að mælt er með endurskoðun á árangri eða réttara sagt árangursleysi kvótakerfisins og í ljósi þess ákvæðis 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að kerfið eigi að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu, óska ég að sjávarútvegsráðherra lýsi því nú yfir fyrir þingi og þjóð hvort hann vinni að því og hafi vilja til þess að afleggja kvótakerfið eða breyta því verulega að vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun. Eða er þessi skoðanakannanavilji og fylgni aðeins bundið við Samfylkinguna? Hversu langt er endurskoðun á veg komin? Hvenær verða verklok í þeirri vinnu ef hún er hafin?

Einnig spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra: Ætlar sjávarútvegsráðherra að lagfæra reglur um línuívilnun svo þær þorskveiðiheimildir sem gert var ráð fyrir í línuívilnuninni nýtist til veiða og vinnslu á þessu fiskveiðiári í sjávarbyggðum landsins eða munu heimildir sem ónýttar voru verða færðar milli fiskveiðiára til aukinnar atvinnu og mótvægisaðgerða á næsta fiskveiðiári?

Nú eru þorskveiðiheimildir aðeins 130 þús. tonn og nú þrengir verulega að enda minnka þorskveiðiheimildir ört. Við þessu þarf að bregðast með öllum tiltækum ráðum.