135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

endurskoðun kvótakerfisins.

[13:49]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé með sanngirni hægt að segja að ekki hafi verið vilji til að gera breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða því að eins og hv. þingmaður hefur margoft sagt sjálfur úr þessum ræðustól hafa verið gerðar mjög miklar breytingar einmitt á þeim lögum. Það þarf ekki annað en að fara yfir lögin til að sjá það. Ég ítreka hins vegar að ég tel að það skipti máli m.a. fyrir sjávarútveginn og þar með hinar dreifðu byggðir að þær breytingar sem við gerum séu liður í þróun en ekki í kollsteypu. Ég tel að leggja eigi málin upp nákvæmlega þannig.

Ég svaraði spurningunni alveg skýrt um línuívilnunina. Á þessari stundu er ekki verið að undirbúa neinar lagabreytingar í þeim efnum. Línuívilnunin hefur verið umdeild en ég hef hins vegar verið ákafur talsmaður hennar og tel að hún hafi reynst vel.