135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

húsnæðismarkaðurinn og Íbúðalánasjóður.

[13:55]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir heiðarleg svör. Það er ljóst að stjórnarflokkarnir ganga ekki takt þegar talið berst að málefnum Íbúðalánasjóðs og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að standa vörð um þann sjóð.

Hins vegar er það líka morgunljóst, hæstv. forseti, að ætli ríkisstjórnin sér ekki að gera neitt í húsnæðismálum og aðgerðum á því sviði mun spá Seðlabankans rætast, þá mun verð á fasteignum lækka um 30% fram til ársloka 2010. Fólk kallar, fasteignasalar og aðilar á markaði kalla eftir einhverjum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. En ég er alveg viss um það að hæstv. fjármálaráðherra heldur fast utan um félagsmálaráðherrann í því að auka ekki við útlánaheimildir Íbúðalánasjóðs eða annað sem snertir málefni Íbúðalánasjóðs, enda var það hlutverk framsóknarmanna áður fyrr og nú Samfylkingarinnar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að standa vörð um Íbúðalánasjóð. En því miður (Forseti hringir.) virðist Sjálfstæðisflokkurinn bera ægivald yfir Samfylkinguna í þessum mikilvæga málaflokki (Gripið fram í.) því að ekkert er verið að gera til (Forseti hringir.) að bæta stöðu húsnæðiskaupenda hér á landi (Gripið fram í.) hvað Íbúðalánasjóð varðar.