135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

mannekla á velferðarstofnunum.

[14:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka þetta brýna mál upp á Alþingi. Það er nú svo að það hefur tekist, eða tókst a.m.k. að halda Sjálfstæðisflokknum frá heilbrigðisráðuneytinu í tvo áratugi eða svo en hann er ekki fyrr kominn þangað inn en allt virðist einhvern veginn vera komið í uppnám.

Forsætisráðherra sagði við myndun þessarar ríkisstjórnar að loksins væri hægt að taka til í heilbrigðismálum enda hefði Samfylkingin verið svo huppleg að hleypa íhaldinu þangað inn. Nú vitum við hvað tiltektin forsætisráðherrans þýðir, hún þýðir að reka yfirmenn sem eru ekki viljalaus verkfæri ráðamanna, einkavæða einstakar deildir, jafnvel þótt það sé mun óhagkvæmara og dýrara, úthýsa heilum starfsstéttum, fautast á starfsfólki með skipunum að ofan og valdníðslu, hrekja fólk úr störfum og skapa manneklu til að réttlæta enn frekari einkarekstur og einkavæðingu. Það er tiltektin og hún er ekki í anda jöfnuðar og réttlætis. Nei, hún er skólabókardæmi um nýfrjálshyggju þar sem þarfir og hagsmunir markaðarins, fjármagnsins, gróðafyrirtækja, ríkja en hagsmunir alls almennings, sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks, víkja. Það er bara ekkert öðruvísi.

Heilbrigðiskerfið hefur verið mergsogið fjárhagslega undanfarin ár og er þarft að minna á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið fjármálaráðuneytinu í 17 ár eða þar um bil og þann tíma vilja íslenskir jafnaðarmenn lengja enn frekar. Þetta kom m.a. glöggt fram í deilu heilbrigðisstjórnvalda við skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga og geislafræðinga fyrir skemmstu þar sem stjórnvöld sáu fram á algjört neyðarástand á spítölunum ef starfsmenn hefðu hætt störfum, sáu sitt óvænna og bökkuðu að sjálfsögðu með ósanngjarnar kröfur sem þau höfðu sett fram í upphafi.

Ég ætla að minna hér á kosningaloforð Samfylkingarinnar og ákvæði í stjórnarsáttmála um launajafnrétti. Það er mjög mikilvægt að taka á launamálum á velferðar- og umönnunarstofnunum til að ná þeim árangri sem þar (Forseti hringir.) er sett fram markmið um. Fjármálaráðherra hefði hér átt að gefa svör um það að taka þurfi myndarlega á launum starfsmanna í velferðarþjónustunni.