135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. frummælanda um frumvarpið, að það er almenn þverpólitísk samstaða um þær breytingar sem hér er verið að gera á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það er verið að færa margt til betri vegar, t.d. að breyta viðmiðunartíma fæðingarorlofsgreiðslnanna sem er tvímælalaust spor fram á við.

Einn er þó hængur á þessu máli og það er að ekki sitja allir við sama borð. Hugsunin með fæðingarorlofslögunum á sínum tíma var sú að bæta stöðu foreldra, auðvelda þeim að vera samvistum við börn sín á heimili, bæði mæðrum og feðrum. Það var hugsunin þarna á bak við. Um þetta myndaðist víðtæk sátt í samfélaginu. Þetta voru hugmyndir, óskir og kröfur sem komu frá verkalýðshreyfingu og var vel tekið á Alþingi á sínum tíma og í ríkisstjórn og það var tvímælalaust mikið framfaraspor að haga þessum málum eins og gert var.

Ég sagði að það hefði verið einn hængur á í þessu máli. Þannig er að hugsunin var sú að í fæðingarorlofi ætti fólk að búa við mjög svipuð kjör og það ella hefði haft væri það á vinnumarkaðnum og þá væri verið að greiða orlofslaun þannig að þegar kæmi að því að fólk tæki sumarleyfi þá gæti það gert það þrátt fyrir að hafa verið með börnum sínum í fæðingarorlofi. Núna á þetta við um þá sem starfa hjá hinu opinbera, starfsmenn ríkis og sveitarfélaganna. Þar eru greidd slík orlofslaun þannig að þegar fæðingarorlofinu sleppir á fólk rétt á sínu fríi eins og ekkert hafi í skorist.

Verkalýðshreyfingin hefur tekið þetta mál upp og BSRB var með mjög ríkar áherslur í þessu efni. En þótt það gilti um flesta félagsmenn í aðildarfélögum BSRB að þeir nytu orlofs síns eftir fæðingarorlof þá gilti annað um þá sem störfuðu hjá fyrirtækjum sem höfðu verið einkavædd eða gerð að hlutafélögum. Þar giltu sömu reglur og á almennum vinnumarkaði og nefni ég þar t.d. póstþjónustuna. En það var og hefur verið mjög afdráttarlaus krafa af hálfu BSRB að þetta gangi yfir allan vinnumarkaðinn.

Það sama gildir um Alþýðusamband Íslands sem hefur lagt mjög ríkar áherslur í þessu efni. Ég held að tillaga um breytingu á fæðingarorlofslögunum hafi fyrst verið flutt á árinu 2004–2005 en hefur síðan verið margflutt af þeim sem hér stendur og núverandi félagsmálaráðherra í ríkisstjórninni, hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Við fluttum breytingartillögu við fæðingarorlofslögin í þá veru að greiða skyldi orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og vildum þannig laga þessi mál. Frumvarpi okkar var skotið til umsagnar hjá verkalýðshreyfingunni og víðar í þjóðfélaginu og þá birtust mjög afdráttarlausar yfirlýsingar, bæði frá BSRB og Alþýðusambandi Íslands. Ég ætla að leyfa mér að vitna í umsögn ASÍ frá 2004, af þessu tilefni en þar segir, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof, 22. mál, orlofslaun. Markmiðið með frumvarpinu, verði það að lögum, er að tryggja að foreldrar í fæðingarorlofi fái greidd orlofslaun vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Hér er að mati ASÍ um mikilvægt réttlætismál að ræða.“

Ég ætla ekki að lesa allt upp en í umsögninni er vikið að því að málið var látið ganga til þeirra aðila sem eiga að kveða upp úr um réttmæti þess að mismuna á vinnumarkaði og síðan fór málið reyndar fyrir dómstóla. Í umsögn ASÍ frá þessum tíma kemur fram að dómurinn hafi ekki fallist á kröfu ASÍ og hafi sýknað Tryggingastofnun um að mismuna fólki í fæðingarorlofi eftir því hvar á vinnumarkaði það var. En í umsögninni segir áfram, með leyfi forseta:

„Þótt héraðsdómur sýknaði Tryggingastofnun af kröfu Alþýðusambandsins tók hann undir mikilvæga þætti í málflutningi ASÍ fyrir dóminum. Þannig féllst dómurinn á að misræmi sé á milli ákvæða orlofslaga og tilskipunar ESB um að launafólk eigi rétt á orlofslaunum í orlofi og þess að lögin um fæðingar- og foreldraorlof tryggi ekki að þau njóti orlofslauna í orlofi vegna fæðingarorlofs. Síðan segir dómurinn: „Misræmi sem stefnandi vísar til breytir ekki efni þessara reglna, enda ber að hafna því sjónarmiði stefnanda að dómurinn geti túlkað reglurnar sem hér gilda á þann hátt að slíkt misræmi verði með því leiðrétt.“

Þá ber að geta þess að í tengslum við breytingar sem gerðar voru á lögunum um fæðingar- og foreldraorlofið 2004 lagði Alþýðusambandið „ríka áherslu á að tækifærið sem nú gefst við endurskoðun laganna um fæðingar- og foreldraorlof verði notað til að taka af öll tvímæli um að foreldrar sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands fái greidd orlofslaun samkvæmt 7. gr. laga um orlof, nr. 30/1987, vegna þess tíma sem þeir eru í fæðingarorlofi og njóta greiðslu úr sjóðnum samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.“ Eins og segir í umsögn ASÍ um frumvarpið 19. maí 2004. Við þessum ábendingum ASÍ var ekki orðið.

Það er ljóst að launafólk á almennum vinnumarkaði getur ekki sætt sig við þá niðurstöðu sem nú blasir við og felur í sér að fæðingarorlof fólks á almennum vinnumarkaði er í reynd styttra en annarra. Með því er með alvarlegum hætti brotið gegn þeim markmiðum fæðingarorlofslaganna að jafna réttindi launafólks á íslenskum vinnumarkaði.“

Enn segir, með leyfi forseta: „Fyrir liggur að með niðurstöðu héraðsdóms í máli ASÍ gegn Tryggingastofnun er málið komið á hinn pólitíska vettvang og það er hlutverk Alþingis að sjá til þess að lögin verði með þeim hætti að markmiðum þeirra verði náð.“

Þetta er úr umsögn Alþýðusambandsins frá þeim tíma þegar ég og hæstv. núverandi félagsmálaráðherra lögðum fram tillögu um það sem vísað er í í þessari afdráttarlausu yfirlýsingu frá Alþýðusambandi Íslands. Nú spyr ég: Hvað ætlar hæstv. félagsmálaráðherra að gera þegar breytingartillagan sem hér er lögð fyrir þingið og snýr nákvæmlega að þessu verður borin undir atkvæði á Alþingi? Og það minnsta er að þingheimur fái upplýsingar um hvað valdi því að þessar breytingar sem við gerðum tillögu um, ég og hæstv. félagsmálaráðherra á sínum tíma, ná ekki fram að ganga og birtast ekki í stjórnarfrumvarpinu. Hvað dvelur orminn langa? Hver er skýringin á þessu? Ég hef aldrei efast um góðan ásetning núverandi hæstv. félagsmálaráðherra enda höfum við verið samherjar í þessari baráttu og ég veit að hennar sannfæring er sú að úr þessu eigi að bæta. Þess vegna spyr ég: Er það Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur í vegi fyrir þessu eða er andstaða gegn þessu innan Samfylkingarinnar? Eða eru menn þar búnir til úr brjóski en ekki beini? Geta menn ekki staðið að þeim tillögum sem við gerðum sameiginlega fyrr á tíð? Við stóðum að þessu saman, þáverandi stjórnarandstaða úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni. Hvernig stendur á því að þær tillögur sem við fluttum sameiginlega, ég og hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, er ekki að finna í núverandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar? Það er vikið að því mjög óljósum orðum í nefndaráliti að það eigi að spjalla um þetta síðar í mánuðinum en það eru engin fyrirheit gefin um neinar efndir og ég spyr: Hver er skýringin á þessu? Að sjálfsögðu munum við kalla eftir skýringum áður en þetta mál er til lykta leitt í þinginu.