135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að þar sem er mismunað á að reyna að greiða úr og jafna upp á við, ekki niður á við, sérstaklega þegar um er að ræða almennt launafólk sem er á lágum og millitekjum. En ég verð að lýsa svolitlum áhyggjum yfir þeirri áherslu og þeirri sýn sem kemur frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu. Hann talar um orlof á orlof ofan, að það sé verið að gefa fólki frí, það sé bara frí. Á fólkið að vera þremur vikum lengur í fríi? Við erum að tala um fæðingarorlof til að foreldrar geti verið heima hjá börnum sínum og sinnt þeim. Það getur verið gaman og gott, og góð tilfinning en þetta er ekki hugsað sem frí. Þetta er hugsað sem tækifæri fyrir foreldra til að sinna börnum sínum og heimili. Það er hugsunin. Staðreyndin er sú að fólk sem er á opinberum vinnumarkaði nýtur þess að greidd eru orlofslaun af greiðslum sem ganga til Fæðingarorlofssjóðs þannig að fólk getur þá fengið sumarfrí eins og ekkert hafi í skorist. Hugsunin á bak við þetta var að þetta yrði samsvarandi kjaraumhverfi og menn hefðu notið í vinnu. Út á það ganga tillögur okkar — ég segi okkar af því að ég hef alltaf fyrrverandi flutningsmann minn með mér í þessu efni, núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, en það var hugsunin á bak þessum hugmyndum og tillögum okkar. Er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur stoppað það?