135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:30]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Ármann Kr. Ólafsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert að stoppa þetta. Samkomulag var um það innan meiri hlutans í nefndinni að þetta yrði tekið upp síðar meir í tengslum við lenginguna.

Þegar ég fer í sumarfrí og hef börnin með mér þá er ég í fríi, ég er í fríi frá vinnu með fjölskyldunni. Ég hef eitthvað misskilið hlutina ef ekki er litið á það sem frí frá vinnu að vera með börnunum. Mér þykir best af öllu að fá frí frá vinnu til að vera með börnunum, ég lít ekki á það sem vinnu, ég lít á það sem frí. Það getur varla skipt máli hvort barnið er eins vikna eða fimmtán ára, ég sé engan mun á því, það er nú bara þannig.

Þess vegna er hægt að segja: Við viljum lengja fæðingarorlofið. Já, já það er fín umræða. En mér finnst þetta svolítill útúrsnúningur. Ég tala nú ekki um ef það er ekki flokkað sem sumarfrí ef ég tek börnin mín með í frí. Það er dálítið sérstök nálgun. Ég vona að hv. þingmaður taki börnin sín með í frí og líti þá þannig á að hann sé enn í fríi.