135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður var ekki alveg með markmið fæðingarorlofsins á hreinu. En svo vill til að jómfrúræða mín fjallaði einmitt um fæðingarorlof. Á þeim tíma var fæðingarorlofið eingöngu ætlað konum til þriggja mánaða og það var krónutala og hún var mjög lág. Ég fjallaði um það að nauðsynlegt væri að koma á jafnræði, að fæðingarorlofið færi til beggja, þannig að karlar yrðu jafndýrir konum á vinnumarkaði, það er sögulega skýringin.

Meginmarkmiðið á bak við fæðingarorlofið var að auka jafnrétti kynjanna. Það var meginmarkmiðið þó að blessuð börnin njóti þess líka með meiri samvistum við foreldrana og feðurnir njóti þess sérstaklega. Þessu vildi ég koma á hreint.

En breytingin úr þremur mánuðum, föst krónutala og konur yfir í níu mánuði, tekjutengt 80% og bæði kyn var óskaplega mikil breyting og tekin til fyrirmyndar um allan heim, bara svo að því sé haldið til haga. Menn geta síðan rifist um það hvort það eigi að vera 10% lengra með því að bæta orlofi ofan á orlof. Menn geta rifist um það. Það er allt í lagi. En í stjórnarsáttmálanum stendur að fæðingarorlof skuli lengt í áföngum. Það verður gert. Og þá kemur þetta inn í umræðuna um það hvort kalla eigi þetta orlof ofan á orlof eða ekki. Það skiptir ekki máli.

Þó að opinberir starfsmenn séu með þessi réttindi en ekki fólk á almennum vinnumarkaði, þá eru bara fjöldamörg atriði þar sem opinberir starfsmenn hafa forréttindi. Ég nefni t.d. B-deildina þar sem eftirlaunareglan hefur hækkað lífeyrinn um 50, 60, 70% umfram verðlag og menn tala ekki mikið um. Opinberir starfsmenn hafa fjöldann allan af forréttindum, ég nefni áminningarréttinn sem dæmi. Ég minni líka á að allar þessar bætur eru borgaðar af einhverjum.