135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:59]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans jákvæðu ræðu í garð þeirra breytinga sem hér er verið að gera á fæðingar- og foreldraorlofslögunum. Hann fór ágætlega yfir söguna en mér fannst svolítið gaman að því hvað hann hældi sínum flokki, Framsóknarflokknum, mikið í ræðu sinni fyrir þá löggjöf sem við höfum og búum við í þessum efnum og er afar góð, en um hana var auðvitað mjög breið samstaða og algjörlega þverpólitísk samstaða á sínum tíma sem var mjög jákvætt.

Ég vil þá spyrja hv. þingmann, vegna þess að stærsta breytingin sem verið er að gera í þessu frumvarpi núna er kannski sú að laga viðmiðunartímabilið í núgildandi lögum þar sem sumir lenda í því að verið er að miða við jafnvel 36 mánaða gamlar tekjur og fólki er mismunað eftir því hvenær á árinu börn þess fæðast. Þetta þekkir þingheimur allur, þetta gríðarlega óréttlæti sem verið er að leiðrétta í því frumvarpi sem hér verið að afgreiða. Og þá vil ég auðvitað að spyrja hv. þingmann hvort hann skrifi ekki þá breytingu líka á Framsóknarflokkinn miðað við það hvernig hann hældi sér af löggjöfinni áðan.

Það sem ég ætti kannski líka að spyrja hv. þingmann um er hvort Framsókn hafi ekki séð ljósið núna og styðji þessa breytingu og þá gríðarlega nauðsynlegu leiðréttingu sem við erum að gera á þessum lögum þannig að þau geti farið að virka eins og þau áttu að gera upphaflega, en undir forustu Framsóknarflokksins var því breytt á síðasta kjörtímabili þannig að það óréttlæti sem við búum við núna varð staðreynd.

Þessu vildi ég koma á framfæri, virðulegi forseti, og spyrja hv. þingmann áðurnefndra spurninga.