135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[16:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir undrar sig á því að ég skuli ræða um þátt Framsóknarflokksins þegar við ræðum um þessa stórgóðu löggjöf sem samþykkt var árið 2000.

En það var nú einu sinni þannig að það var þáverandi hæstv. framsóknarráðherra Páll Pétursson félagsmálaráðherra sem lagði málið fram. Ég man að hann bar það starf uppi innan félagsmálaráðuneytisins í ágætu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins. Það var heilmikið mál að koma þessari löggjöf á og að sjálfsögðu var það þannig líka að því frumvarpi var vel tekið hér á vettvangi Alþingis.

Ég tel nú að Framsóknarflokkurinn megi nú alveg eiga það inni að hann sé nefndur nú þegar við ræðum um þessa framfarasinnuðu löggjöf sem fæðingar- og foreldraorlofið er.

Hins vegar er þetta ekki gömul löggjöf. Hún var lögfest hér árið 2000 og gerðar hafa verið breytingar á henni í áranna rás. Ég held að það sé svo sem ekki neitt til sem heitir óréttlæti eða eitthvert sérstakt réttlæti þegar menn tala um viðmiðanir.

Hins vegar var það umtalsefni í aðdraganda síðustu kosninga, ég man það. Þá kom fólk sem benti mér á að það væri ákveðið óréttlæti eða óhagræði í þeirri viðmiðun sem þá var. Ég man ekki betur en að flestir stjórnmálaflokkar hafi staðið að því í aðdraganda síðustu kosninga að bæta fæðingar- og foreldraorlofið sem þessu næmi og lengja það. Ég byggi m.a. málflutning minn hér á því að lengja beri fæðingarorlof starfsfólks á almennum vinnumarkaði rétt eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur mælt hér fyrir um.

Ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi á síðasta kjörtímabili stutt þá tillögu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Því er eðlilegt að spyrja hvort hv. þingmaður muni ekki styðja þá tillögu sem lögð verður fram (Forseti hringir.) hér í atkvæðagreiðslu um fæðingar- og foreldraorlof sem mun fara fram á næstunni.