135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[16:19]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Ármann Kr. Ólafsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir málefnalega umræðu og ég tek undir það með honum að þetta var skilningur í nefndinni, þ.e. að viðkomandi einstaklingar mundu samþykkja að veita aðgang að skattgögnum sínum. Það væri forsenda þess að viðkomandi fengju tilteknar bætur eða tilteknar greiðslur.

Þetta er líka, held ég, fordæmisgefandi þó finna megi það í einstaka tilvikum að lög kveða á um að aðgangurinn sé án þessara skilyrða, þ.e. að einstaka stofnanir geti leitað eftir upplýsingum án þess að upplýst samþykki liggi fyrir þá hefur verið bent á að það sé mjög æskilegt að þróunin verði með þessum hætti til þess að viðkomandi aðilar séu algjörlega upplýstir um að það kunni að verða leitað þessara upplýsinga. Ég held að þetta sé bara réttlætismál gagnvart einstaklingunum.

Svo er það annað mál nákvæmlega hvaða aðferðafræði við notum. Nú tala ég hérna bara fyrir mig. Ég veit ekki hvort formaðurinn hefur einhverja aðra skoðun á þessu. Ég sæi í rauninni ekkert að því að fá þetta inn í nefndina aftur og klára það þannig.