135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

564. mál
[12:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Á vef heilbrigðisráðuneytisins birtist þann 7. mars tilkynning um að ráðherra hefði ákveðið að ráðast í að sameina heilbrigðisstofnanir á þremur svæðum, á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Þar er jafnframt greint frá því að stefnt er að því að tillögur um framkvæmd sameiningarinnar liggi fyrir í byrjun júní og að þær verði að fullu komnar til framkvæmdar um næstu áramót. Þetta kom mér dálítið á óvart í ljósi þess að þegar nýsett heilbrigðislög frá því í mars 2007 eða lög um heilbrigðisþjónustu voru sett lýsti þáverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, því yfir að það væru engar áætlanir um skipulagðar sameiningar heilbrigðisstofnana í kjölfar þeirra laga sem þá voru fyrir Alþingi, þó að auðvitað gæti enginn ákveðið fram í tímann hvað yrði gert þá lægju alla vega ekki fyrir neinar áætlanir um slíkt á þeim tíma. En lögin eru þannig að samkvæmt 5. gr. hefur ráðherra heimild til að sameina heilbrigðisstofnanir með reglugerð, stofnanir sem eru innan sama heilbrigðisumdæmis. Auk þess hefur ráðherra í sömu lagagrein heimild til að breyta og ákvarða umdæmi með reglugerð þannig að það er hægur vandi út af fyrir sig að sameina hvaða stofnanir sem er á landinu út frá þessum tvöföldu heimildum ráðherra til reglugerðarsetningar.

Virðulegi forseti. Fjárlög eru líka lög og það kemur mér á óvart að þessi lög um heilbrigðisþjónustu ganga lengra en fjárlög og að unnt sé að sameina stofnanir án þess að fjárlög geri ráð fyrir því. Ég hef engar frekari upplýsingar um þetta mál og það er dálítið athyglisvert að þingið skuli hafa afgreitt þessa lagasetningu sem ég hef nefnt á þann veg að ekki þurfi að gera þinginu grein fyrir þessum áformum, aðeins Sambandi íslenskra sveitarfélaga og viðeigandi sveitarfélögum. Þess vegna held ég að óhjákvæmilegt sé að inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða sameiningar eru á döfinni. Ég hef því lagt fram fyrirspurnir um það á þskj. 870 í þremur liðum þar sem í fyrsta lagi er spurt hvaða heilbrigðisstofnanir sé ráðgert að sameina á þessum þremur svæðum, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi, í öðru lagi hvaða breytingar séu áformaðar á núverandi starfsemi einstakra stofnana og í þriðja lagi hvort einhver sérstök vandkvæði séu í rekstri þeirra stofnana sem sameina á varðandi fjárhag eða þjónustu sem (Forseti hringir.) sameiningunni er ætlað að bæta úr.