135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

564. mál
[12:23]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins fá að koma inn í þetta mál og nefna það að þó að orðið sé heimilt í lögum að sameina heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þá er langur vegur frá því að hafa þá heimild eða gera það með valdboði eins og núna hefur verið boðað. Hér spurði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson um fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisstofnana á Vesturlandi. En sama staðan er uppi í Norðausturkjördæmi þar sem til stendur að sameina heilsugæslustöðvarnar á Dalvík, Heilsugæsluna á Ólafsfirði og Heilbrigðisstofnunina á Siglufirði. Þetta eru hugmyndir sem koma alveg þvert á hugmyndir heimamanna um eflingu þjónustunnar á svæðinu og með allt öðrum hætti en hér er lagt til. Það er skrýtið að láta sér detta í hug að fara í sameiningu á svo mikilvægri (Forseti hringir.) starfsemi án samráðs og án þess að fá það besta út úr sameiningunni, þ.e. ekki bara sameiningarinnar vegna heldur þannig að hún skili einhverju.