135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

endurskoðun laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði.

573. mál
[12:33]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir fyrirspurnina. Það stóð til að svara henni ásamt fleiri fyrirspurnum síðasta miðvikudag en þá gekk mikið á hjá þeim sem hér stendur við að leysa mál sem allir voru öll sammála um að væri mikilvægt að yrði leitt til lykta og hv. þingmaður brást því vel við beiðni um að bíða aðeins með þetta og tók þar með hagsmuni heilbrigðisþjónustunnar fram yfir sína eigin og ber að þakka hv. þingmanni fyrir það eins og margt annað sem hv. þingmaður hefur gert.

Hv. þingmaður spyr mig að því hvort ráðherra hafi endurskoðun á lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði, nr. 139/1998, samanber 19. gr. laganna. Því er til að svara, virðulegi forseti, að hinn 30. desember árið 1998 tóku gildi lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í 19. gr. umræddra laga er ákvæði um að þau skuli endurskoðuð eigi síðar en tíu árum eftir gildistöku þeirra. Í tilefni af dómi Hæstaréttar frá 27. nóvember 2003 þar sem viðurkenndur var réttur dóttur til að synja um að upplýsingar um látinn föður hennar yrðu færðar í gagnagrunninn var ráðist í endurskoðun á ákveðnum þætti laganna.

Í frumvarpi sem unnið var í heilbrigðisráðuneytinu á árinu 2005 voru lagðar til breytingar á 7. og 10. gr. laganna. Umrætt frumvarp var ekki lagt fyrir þingið og réðst það fyrst og fremst af því að í reynd höfðu lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði aldrei komist í framkvæmd og ekkert bendir til að svo verði á næstunni. Segja má að lögin séu í reynd dauður bókstafur og því er ekki talin ástæða til að ráðast í endurskoðun þeirra. Að óbreyttu er því gert ráð fyrir að lögin verði felld úr gildi eigi síðar en þegar rekstrarleyfi Íslenskrar erfðagreiningar til starfrækslu gagnagrunnsins rennur út í janúar 2012.

Hv. þingmaður spyr líka hvort ráðherra hafi tekið afstöðu til tímabundins rekstrarleyfis Íslenskrar erfðagreiningar til starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði. Rekstrarleyfið gildir til og með 21. janúar árið 2012. Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði verði felld úr gildi eigi síðar en þegar rekstrarleyfið rennur út og því engar áætlanir um endurnýjun leyfisins eða útgáfu nýs leyfis til að reka gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessi svör svari fyrirspurn hv. þingmanns.