135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

öryggi vegasambands við Ísafjörð um Súðavíkurhlíð.

390. mál
[12:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda Jóni Bjarnasyni þá spyr hann mig um öryggi vegasambands um Ísafjörð og Súðavíkurhlíð. Fyrsta spurningin hljóðar svo:

„Hvað líður áformum um aukið öryggi vegasambands við Ísafjörð um Súðavíkurhlíð?“ Undanfarin ár hefur verið nokkur fjárveiting á vegáætlun á hverju ári til að bæta öryggi á leiðinni milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Í stórum dráttum hefur verið unnið eftir tillögum í greinargerð vinnuhóps Vegagerðarinnar um öryggi Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur frá árinu 2002. Á veginum um Súðavíkurhlíð hafa verið gerðar ákveðnar endurbætur til að minnka grjóthrun á veginn og hefur náðst verulegur árangur í því efni. Þetta hefur verið gert með því að breikka rásir og er þeim áfanga lokið að miklu leyti.

Aðrar ákvarðanir um aðgerðir liggja ekki fyrir. Í nefndri greinargerð frá 2002 eru ýmsar tillögur settar fram og mismunandi leiðir bornar saman. Miðað var við snjóflóðatíma frá 1991–2000 og var tími snjóflóða um 56 á ári eða um 2,5 snjóflóð í hverju gili. Ódýrasta leiðin til endurbóta sem nefnd er í greinargerðinni, kostur 6, er talin kosta um hálfan milljarð kr. á núverandi verðlagi. Áætlað er að snjóflóðatími á veginn eftir þær endurbætur væru 16 flóð á ári.

Önnur spurningin hljóðar svo: „Hefur verið gert áhættumat á núverandi vegi milli Ísafjarðar og Súðavíkur? Ef svo er, hvernig kemur það mat út miðað við tilsvarandi vegarkafla innan og milli byggðarlaga annars staðar?“ Áhættan á því að bíll lendi í snjóflóði er hlutfallsleg við fjölda snjóflóða margfaldað með umferðinni. Í greinargerðinni frá 2002 var borin saman áhætta á hlíðunum í nágrenni Ísafjarðar. Þá voru líkurnar á því að bíll lenti í snjóflóði taldar meiri á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur en á milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Síðan hafa verið gerðar nokkrar endurbætur á leiðinni Ísafjörður/Bolungarvík þannig að röðin hefur snúist við. Veðurstofan gerði athugun á málinu 2006 og miðaði við árabilið 1997–2005. Þá er tekið tillit til þeirra endurbóta sem gerðar höfðu verið og áhættan á því að bíll lenti í snjóflóði á leiðinni frá Ísafirði til Súðavíkur er talin mun meiri eða 75% meiri en á leiðinni frá Ísafirði til Bolungarvíkur eftir að endurbætur voru gerðar þar.

Ekki er þekkt önnur leið þar sem líkur á snjóflóðum eru jafnmiklar. Þó er mikilvægt að taka fram að grjóthrunshætta er talin með ef hættustig er hærra á Bolungarvíkurleiðinni en það breytist með þeim jarðgöngum sem nú er búið að bjóða út.

Í þriðja lagi er spurt: „Kemur til greina að gerð jarðganga um Súðavíkurhlíð verði sérstakt flýtiverkefni með tilliti til öryggis?“ Til eru frumathuganir á nokkrum möguleikum á legu jarðganga á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Sú lausn sem talin var best án tillits til kostnaðar var að gera rúmlega 60 metra löng göng úr mynni Sauradals fyrir ofan Súðavík að Naustum nærri ytri enda Ísafjarðarflugvallar. Kostnaður gæti verið 5–6 milljarðar kr. Jarðgöng um Súðavíkurhlíð eru vissulega áhugaverður kostur sem vert er að skoða. Engin breyting hefur þó orðið á Súðavíkurhlíð á undanförnum árum sem kallar á nauðsyn þess að gripið sé til flýtiverkefnis á þessari leið. Það hefur m.a. verið mat a.m.k. þriggja síðustu samgönguráðherra, svo dæmi séu tekin af handahófi, og núverandi ráðherra deilir þeirri skoðun með þeim en telur þó brýnt að íhuga gaumgæfilega hvort ekki sé ástæða til að ræða þetta við gerð næstu 12 ára samgönguáætlunar.