135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

öryggi vegasambands við Ísafjörð um Súðavíkurhlíð.

390. mál
[12:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að mér finnist hann mega taka aðeins fastar á. Þetta er ekkert smámál, öryggismál í vegasamgöngum á þessu svæði um Súðavíkurhlíð. Ég benti á fréttir hér áðan: „40 snjóflóð á tveim dögum“, og ég get hér rakið fleiri fréttatilkynningar frá síðasta vetri: „Umferð fylgt um Súðavíkurhlíð“, „Snjóflóð féll á Súðavíkurhlíð“, „Ók inn í snjóflóð á Súðavíkurhlíð“ o.s.frv.

Öryggismál eru eitt af því mikilvægasta í samgöngum hér á landi og hæstv. ráðherra beitti sér einmitt fyrir því að enn væri hnykkt á þeim þætti í vegalögum nú fyrir skömmu. Hvað er mikilvægara í öryggisskyni en að ráðast í varanlega, örugga vegagerð um þetta svæði? Þarna eru börn að fara til og frá skóla, þetta er eitt samfélag, fólk sækir vinnu beggja megin frá. Þessi hættulegi kafli girðir fyrir að hægt sé að taka upp eðlileg samskipti þarna á milli.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að þetta fari í flýtiframkvæmd, þetta á ekki að hafa nokkur áhrif á aðrar framkvæmdir á Vestfjörðum sem þegar hafa orðið fyrir seinkun, frekar er ástæða til þess að kýla á auknar framkvæmdir. Það gæti líka verið skoðun að nýta samlegðaráhrif og byggja göngin samtímis því að verið er að gera Bolungarvíkurgöngin. Við eigum ekki að líta þannig á að þetta dragi úr öðrum framkvæmdum, frekar að þetta sé liður í að vinna að öryggi á milli staða á Vestfjörðum og vinna líka upp (Forseti hringir.) nokkur af þeim sviknu loforðum í vegaframkvæmdum sem Vestfirðingar hafa orðið að þola á undanförnum árum.