135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

stofnanir á sviði samgöngumála og Háskólinn á Akureyri.

417. mál
[13:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Frú forseti. Ég hvet hv. þm. Jón Bjarnason til að horfa fram á veginn og leita leiða til að efla landsbyggðina eins og kostur er. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið. Ég geri mér fulla grein fyrir að þessum spurningum er ekki auðsvarað en við hljótum að þurfa að velta því fyrir okkur hvernig við sjáum þróun byggðar í landinu og hvað við getum gert til að efla stóra kjarna. Ég er afar ánægð sem þá starfsemi sem Vegagerðin hefur á Akureyri, sérstaklega er gott að hönnun vega skuli vera þar.

Ég veit að sjónarmið stofnunarinnar skipta máli, frú forseti, en dropinn holar steininn. Akureyri er langstærsti byggðarkjarninn utan höfuðborgarsvæðisins. Þar er allt til alls. Innviðir eru sterkir, mannlíf er fjölbreytt, menningarlíf er í blóma og menntakerfið er sterkt. Stjórnvöld eiga að horfa til Akureyrar með það að markmiði að efla hana enn frekar. Það hjálpar höfuðborgarsvæðinu líka, af því að við megum ekki gleyma því að landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið eiga alls ekki að vera andstæðir pólar. Þvert á móti þurfum við öll að vinna saman. Það hentar okkur ekki að allir búi hér á þessu horni. Við hljótum að stefna að fjölbreyttari mannlífi í landinu og hjálpa til með það eins og hægt er.

Ég vil gjarnan spyrja þingheim að því og hv. þm. Jón Bjarnason hvernig hann sjái Ísland árið 2050. Viljum við sjá öfluga höfuðborg með stuðningi í sterkum byggðarkjörnum um landið eða viljum við sjá höfuðborg sem er yfirfull af fólki, vanda í miðbæ og landið í auðn? Ég mála þetta andstæðum litum en stundum er það besta leiðin til að átta sig á hvað við viljum og hvert við stefnum. Við skulum horfa fram á veginn, langt fram á veginn.