135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

stofnanir á sviði samgöngumála og Háskólinn á Akureyri.

417. mál
[13:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að bera fram þessa mikilvægu spurningu sem auðvitað er spurning sem sífellt á að bera fram á hinu háa Alþingi.

Þó að hv. þm. Jón Bjarnason hafi hátt um þessi atriði kemur það ekki á óvart. Ég vil t.d. svara því og segja að það er mjög ánægjulegt að ýmis sveitarfélög banka upp á hjá okkur núna og óska eftir að fá að taka að sér ýmis verkefni á sviði samgöngumála, eins og viðhald og vetrarviðhald vega, rekstur flugstöðva og flugvalla o.s.frv. þar sem þau ætla þá að samþætta það sinni starfsemi eins og væntanlega áhaldahúsi viðkomandi svæðis. Þetta er hið besta mál og að þessu erum við að vinna og þetta er einmitt gert í framhaldi af vegalögum sem bæði sá sem hér stendur og talar og hv. þm. Jón Bjarnason og aðrir samþykktu á sínum tíma í fyrra.

Spurningin sem hv. þingmaður bar fram er auðvitað spurning sem, eins og ég sagði áðan, má sífellt spyrja sig: Hvað getum við gert til að flytja störf út á landsbyggðina frá höfuðborgarsvæðinu eða til að efla störf á höfuðborgarsvæðinu? Ég hef hins vegar stundum sagt að við megum ekki byggja landsbyggðina eingöngu upp á störfum á vegum ríkisins. Það þarf meira til, við þurfum meira.

Eins og hv. þm. Ólöf Nordal gat um er það metnaðarfullt atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, störf án staðsetningar, og við skulum vona að það gangi vel eftir á kjörtímabilinu. Við skulum ekki dæma það strax á fyrstu mánuðunum. Við þurfum að sjálfsögðu að flytja fleiri störf ef það er hægt. Það er auðvitað betra að staðsetja nýjar stofnanir úti á landsbyggðinni en að taka gamlar og grónar stofnanir upp og flytja þær. Það er stundum erfitt og sársaukafullt fyrir starfsfólk. Þess vegna hef ég sagt að ég sé hlynntari því að flytja störf, ef hægt er, en að taka heilu og hálfu stofnanirnar upp og flytja þær.

Höfuðborg — landsbyggð. Við skulum vona að sá draumur okkar rætist að að landsbyggðin og höfuðborgin vinni (Forseti hringir.) saman en ekki hvor gegn annarri vegna þess að við þurfum bæði á öflugri höfuðborg og öflugri landsbyggð að halda.