135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

fargjöld með Herjólfi.

508. mál
[13:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Það sem mig langar að bera upp tengist umræðu sem var nokkuð mikil fyrir kosningar meðal kjósenda í Vestmannaeyjum. Fulltrúar flestra flokka, þar á meðal þess flokks sem hæstv. samgönguráðherra situr fyrir í ríkisstjórninni, gáfu þar fyrirheit um að gjaldskrá vegna Herjólfs yrði endurskoðuð. Þó að fargjald þetta sé langt í frá þannig að það dugi til reksturs ferjunnar þá er það mikill skattur fyrir þá sem í Eyjum búa. Ég get tekið þar sem dæmi að fimm manna fjölskylda með þrjú börn sem komin eru yfir 11 ára aldur — ef ég man þessi aldursmörk rétt — má reikna með því að ferðalag til Þorlákshafnar og til baka kosti um 23.760 kr., rétt um 24 þús. kr., eftir þá hækkun sem varð í febrúar. Þá sleppum við öðrum ferðakostnaði frá bryggjunni í Þorlákshöfn.

Það er alveg ljóst að það voru Eyjamönnum nokkur vonbrigði að sú hækkun skyldi ganga að fullu í gegn eiginlega þvert á fyrirheit um að gjaldskráin yrði endurskoðuð. Þannig háttar til með samning við rekstraraðila Herjólfs að heimilt er að hækka fargjaldið einu sinni á ári út frá svokallaðri ferjuvísitölu sem tekur tillit til hluta eins og launa, olíu og annarra slíkra þátta. Það sem menn spyrja eðlilega um í Vestmannaeyjum nú er hvort til standi að endurskoða þetta fyrir næsta vetur þegar aftur kemur að því að hækka út frá ferjuvísitölu. Þá getum við nokkurn veginn gefið okkur miðað við þá þróun sem er fyrirsjáanleg að hækkunin verður meira en 8% ef ekki verður gripið inn í. Ég tel að það sé allt of mikið að ein fjölskylda þurfi að borga um 100 þús. kr. fyrir fjórar ferðir milli lands og Eyja og full ástæða sé til að endurskoða þessa gjaldskrá, enda tók ég undir það í kosningabaráttunni. Ég kalla eftir afstöðu samgönguráðuneytisins til þess hvort slík vinna sé farin í gang og hvort hún tengist þá fjárlagavinnu. Er kannski ástæða til að láta Eyjamenn vita af því að gjaldskráin verði ekki endurskoðuð þann tíma sem Herjólfur mun eiga eftir að sigla til Þorlákshafnar þangað til höfn kemur við Bakkafjöru?