135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

fargjöld með Herjólfi.

508. mál
[13:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir greinargott yfirlit um það hvernig að verðútreikningum þessum er staðið. En það er alveg ljóst að miðað við þær tölur sem hæstv. samgönguráðherra gefur upp sem fargjald þá er greinilega reiknað með því að farþegar þurfi ekki að kaupa sér koju milli lands og Eyja en það er aðeins fyrir sjóhraustustu menn að vera á dekki Herjólfs, því miður. Það hafa sagt mér menn sem hafa stundað sjó að jafnvel þó að þeir kenni sér aldrei sjóveiki við veiðar þá finni þeir fyrir henni í þessu skipi ef eitthvað er að sjó.

Varðandi síðan kostnaðinn við að aka 74 km þá vitum við auðvitað að útgjöld við fjölskyldubíllinn eru ekki sambærileg við það sem ríkið borgar starfsmönnum sínum og þess vegna er þessi tala alls ekki sambærileg. Það var sameiginlegur skilningur margra frambjóðenda, þess sem hér talar og a.m.k. tveggja hv. frambjóðenda hjá Samfylkingunni — annar þeirra gegnir nú stöðu aðstoðarmanns samgönguráðherra — að þessi gjaldskrá væri of há. Nú heyri ég á samgönguráðherra að hann hefur ekki sömu sýn á hlutina og telur, ef ég skil hann rétt og ég vildi fá ítrekun á því svari, að það standi alls ekki til að endurskoða þessa gjaldskrá. Hún verði með óbreyttum hætti og muni taka að fullu á sig verðlagshækkanir í febrúar á næsta ári sem verða ef að líkum lætur verulegar og mun meiri en 8%. Með þessu er ég ekki að halda því fram að Vestmanneyjabúar eigi ekki líkt og aðrir landsmenn að þola það að olíuverð fari hækkandi í heiminum. Ég er einfaldlega að vísa til þess að það var sameiginlegur skilningur okkar mjög margra að þessi gjaldskrá sé of há fyrir venjulegt alþýðufólk sem býr í Vestmannaeyjum. Það væri of dýrt að komast milli lands og Eyja (Forseti hringir.) og þess vegna ætlumst við til að það sé endurskoðað.