135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs við upphaf þessa fundar til að ræða um störf þingsins nú þegar komið er fram í maímánuð, u.þ.b. vika liðin af maímánuði og væntanlega ekki nema um tíu þingfundadagar eftir samkvæmt starfsáætlun þingsins. Mig langar að beina máli mínu til hæstv. forseta Alþingis vegna þess að ég hef að undanförnu verið að reka á eftir því að fá svar við skriflegri fyrirspurn sem ég lagði fram í þinginu í febrúarmánuði síðastliðnum til hæstv. forsætisráðherra. Í 49. gr. þingskapalaga segir, með leyfi forseta:

„Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð.“

Tíu virkir dagar eftir að fyrirspurn er leyfð er sá tími sem ráðherrar hafa almennt til að svara skriflegum fyrirspurnum. Nú liggur fyrir að 25 skriflegar fyrirspurnir liggja hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem ætti að vera svarað nú þegar samkvæmt þingskapalögum. Elsta fyrirspurnin sem ekki hefur verið svarað er frá því í nóvember sl. og 11 fyrirspurnum er ósvarað frá febrúar- og marsmánuði.

Það vekur athygli að flestar fyrirspurnir sem er ósvarað eru til hæstv. heilbrigðisráðherra eða sex, fjórar til fjármálaráðherra og fjórar til forsætisráðherra svo dæmi séu tekin. Ég tel að þetta sé algjörlega óviðunandi og ég hlýt að kalla eftir svörum frá hæstv. forseta við því: Hvað ætlar forseti að gera til að reka á eftir því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar virði þingskapalög eða ræði a.m.k. við viðkomandi þingmenn sem lagt hafa fram fyrirspurnir til að skýra (Forseti hringir.) hvað veldur drætti á því að svör fáist við fyrirspurnunum?