135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir skömmu síðan var það tekið upp á opinberum vettvangi, og það var hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem gerði það, að búið sé að auglýsa eftir forstjóra í nýrri stofnun, stofnun um sjúkratryggingar. Hún gagnrýndi það og taldi það sýna mikinn hroka hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að auglýsa eftir forstjóra í stofnun sem ekki er til. Boðað hafði verið að hingað kæmi lagafrumvarp um slíka stofnun en við höfum ekki séð það frumvarp. Því hefur hins vegar verið dreift í dag í hliðarsal í ljósrituðu eintaki og mér skilst að til standi að taka það á dagskrá á morgun. Ríkisstjórnin átti að skila frumvörpum sínum inn 1. apríl eða fyrr og sá tími er löngu liðinn, virðulegi forseti.

Þetta frumvarp inniheldur 73 greinar og fjögur bráðabirgðaákvæði þannig að það er mikið að vöxtum. Ef taka á þetta mál á dagskrá á morgun þarf að veita afbrigði sem ríkisstjórnarflokkarnir geta rúllað upp af því að þeir eru með meira en tvo þriðju hluta atkvæða í þinginu. Ég tel að það sé algjörlega ólíðandi ef þingið á að ljúka þessu máli á þeim tíma sem eftir er. Það eru átta eða níu þingdagar eftir, (Gripið fram í: Sjö.) eða sjö, alla vega er mjög stutt eftir og þrír dagar sem ætlaðir eru í nefndastörf.

Ég vil þess vegna spyrja virðulegan forseta: Á virkilega að traðka á þingræðinu? Á að traðka þannig á þingræðinu að það eigi að reyna að klára þetta mál sem er 73 greinar og fjögur bráðabirgðaákvæði og mörg álitamál? Á virkilega að klára það á þessum tíma, virðulegur forseti? Ég vil gjarnan fá svar við því.