135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar málið sem hér er til umræðu, frumvarp um sjúkratryggingastofnun, þá liggur fyrir að það er komið í dreifingu og það var náttúrlega vitað að þetta frumvarp yrði lagt fram.

Um áramótin var samþykkt á hinu háa Alþingi frumvarp sem varðaði verkaskiptingu milli ráðuneyta og í því frumvarpi var bráðabirgðaákvæði um heimild til að skipa stjórn og ráða forstjóra til þessarar stofnunar. Um helgina var auglýst starf forstjóra þessarar nýju stofnunar.

Hv. heilbrigðisnefnd vissi af þessu frumvarpi í vor og það er rétt að nefndin hefur beðið eftir því. Við höfum líka haft ákveðið svigrúm, við vitum hvað fram undan er, það eru nefndadagar fram undan. Óskað hefur verið eftir því að málið verði tekið til umræðu á morgun og þingheimur veiti afbrigði til að frumvarpið verði tekið til umræðu og við fáum þannig svigrúm til að senda það til umsagnar og fjalla um það á nefndadögunum sem hefjast á föstudaginn í næstu viku.

Við fjölluðum talsvert um þetta mál í haust þegar verkaskiptingarfrumvarpið var til umræðu. Þar var einmitt rætt um ákveðin prinsipp varðandi sjúkratryggingar en mér er fullkomlega ljóst að þingmenn hafa áhuga á að ræða þetta enn frekar. Við höfum óskað eftir því að málið komi til umræðu á morgun svo við getum fjallað um það á nefndadögunum og óskað eftir því við nefndasviðið að fá töluvert rými á þessum dögum til að ræða það. Það er því ekki svo að fólki sé ekki kunnugt um málið. Fólk veit um hvað málið snýst og það er alveg ljóst að lögð var áhersla á að málið kæmist til umræðu (Forseti hringir.) og yrði afgreitt fyrir vorið.