135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki mjög miklu að bæta við það sem kom fram í máli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur. En ég vil taka það fram að mörg af þeim ákvæðum sem eru í þessu frumvarpi sem var til dreifingar í dag þekkja hv. þingmenn mætavel því að verið er að flytja ákveðin ákvæði úr heilbrigðisþjónustulögum yfir í þetta frumvarp. Ég geri því ekki ráð fyrir að það verði mikill ágreiningur um það, síst þar sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir beitti sér fyrir því að þau lög voru sett sl. vor.

Varðandi umsagnirnar þá er það alveg sjálfsagt mál að kalla alla umsagnaraðila inn á fund nefndarinnar. Það er afar eðlilegt og eins og ég sagði áðan hef ég gert ráðstafanir til að heilbrigðisnefnd fái gott svigrúm til að kalla til alla þá aðila sem óskað er eftir.

Ég vil líka benda á að þessar hugmyndir eru t.d. ekki alveg ókunnar þingmönnum Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar frá 1999 var þá þegar rætt um að aðskilja kaupendur og seljendur í heilbrigðisþjónustu og Framsóknarflokkurinn var í þeirri ríkisstjórn. Þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði þá nefnd til að skoða nákvæmlega þessa þætti. Meðal annars var ákveðið að hvetja Landspítalann til að halda áfram með DRG-kerfið, öldrunarstofnanir prófuðu áfram RAI-kerfið. Það er því ýmiss konar vinna sem hefur verið unnin á síðustu árum sem byggir undir þá ákvörðun sem hefur verið tekin núna þótt fyrr hefði verið. Ég vænti því þess að þingmenn Framsóknarflokksins veiti þessu máli lið því að þetta er mikið framfaramál.