135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er orðin venja á þingi að hv. þingmenn Framsóknarflokksins elti okkur uppi, formann fjárlaganefndar og varaformann fjárlaganefndar, varðandi þessi mál og svarið hefur verið samhljóma hjá okkur. Það er að ekki er ástæða til að endurskoða forsendur fjárlaga og að hefur ekki verið ástæða til þess á umliðnum mánuðum. Ástæðan er einfaldlega sú að tekjustreymi í ríkissjóð er með þeim hætti sem var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Ég held að þingmenn Framsóknarflokksins ættu að þekkja þetta, ekki hvað síst fyrrverandi formenn fjárlaganefndar. Þeir ættu að geta sagt hv. þm. Bjarna Harðarsyni og Höskuldi Þórhallssyni hvernig í þessu liggur því að veltuskattarnir hafa verið að aukast á umliðnum mánuðum. Við sjáum það bara á tölum Hagstofunnar í gær sem koma vissulega á óvart, að viðskiptajöfnuðurinn í aprílmánuði er neikvæður um rúma 7 milljarða og viðskiptajöfnuðurinn frá áramótum er orðinn neikvæður um 33 milljarða sem er 10 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra í krónu á móti krónu.

Ef við lítum síðan á þensluna í fjárlögunum er það einu sinni þannig að síðasta ríkisstjórn reið um sveitir — og ekki þá síður Framsóknarflokkurinn í því samstarfi — á vormánuðum 2007 og setti fram loforð um hátt á annan tug milljarða. (Gripið fram í.) Þær tölur endurspegluðust í forsendum fjárlaga. (Gripið fram í.) Á þetta var bent á vormánuðum 2007 og við þessu búi tók ríkisstjórnin. Ég fann ekki annað en að þegar við ræddum þetta í fjárlaganefnd í desember sl. hafi verið samhljómur um að halda áfram með þessi verkefni. Það eina sem kom frá Framsóknarflokknum þegar við vorum að ljúka (Forseti hringir.) fjárlögunum voru tillögur um að fresta ákveðnum stofnframkvæmdum sem boðaðar höfðu verið með löngum fyrirvara. (Gripið fram í: Þetta er ósatt.)