135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

færanleg sjúkrastöð í Palestínu.

571. mál
[14:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um færanlega sjúkrastöð í Palestínu. Ástæða þess að fyrirspurnin er lögð fram er sú að fyrir ári var samþykkt tillaga til þingsályktunar um kaup og rekstur á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu. Þeirri þingsályktunartillögu var vísað til hæstv. ríkisstjórnar til afgreiðslu.

Það er fljótlegt að greina frá því að frá hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert komið. Ekkert kom fram á afgreiðslu fjárlaga. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að verið sé að vinna með þingsályktunartillöguna eða að í undirbúningi sé að standa að færanlegri sjúkrastöð í Palestínu.

Því miður, hæstv. forseti, hefur ástandið í Palestínu ekkert batnað frá því að þessi þingsályktunartillaga var lögð fram fyrir þremur þingum og ástandið frekar versnað á mörgum svæðum. Það er alveg ljóst að þrengt hefur verið að Palestínumönnum og möguleikum þeirra á að sinna heilbrigðisþjónustu og sinna særðum og sjúkum og að ástandið hefur versnað.

Það hefur einnig komið fram, og því tel ég að þessi þingsályktunartillaga hafi verið samþykkt, að það er vilji okkar Íslendinga að standa, þó ekki nema með veikum mætti, að baki Palestínumönnum í þrengingum þeirra. Ein leiðin er að festa kaup á slíkri færanlegri sjúkrastöð sem væri hægt að nota við þær aðstæður sem eru í dag.

Síðasta tilboð eða stuðningsyfirlýsing sem birst hefur frá Íslandi er að taka á móti flóttamönnum frá Palestínu og þá einstæðum konum og börnum. Það er gott mál og við tökum á móti þeim og sinnum þeim hér á landi. Það er mjög erfitt að sinna sjúkum og særðum þar í landinu og því vil ég spyrja hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra hvað þessari þingsályktunartillögu líður.