135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

færanleg sjúkrastöð í Palestínu.

571. mál
[14:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef nú sjaldan verið jafnfegin og ánægð með svör við fyrirspurn á Alþingi. Því miður er það oft svo að maður verður frekar ósáttur við gang mála og óþreyjufullur eftir að verkin gangi fram. En ég vil lýsa ánægju minni með að þetta mikilvæga mál skuli þó vera komið á rekspöl, að það skuli vera komið inn í aðgerðaráætlun og að unnið sé í sátt og að tilstuðlan þeirra lækna sem hvað harðast og einbeittast hafa beitt sér á þessum vettvangi.

Verk af þessu tagi skila ekki árangri nema í samvinnu við heimamenn. Það er nógu erfitt að komast inn á svæðið og styðja Palestínumenn í þeirra verkum, og í raun þeim áróðri sem þeir verða að halda uppi til þess að vonir standi til að einhver friður nái að ríkja á þessu svæði.

Við sem stóðum að þingsályktunartillögunni höfðum öll farið út til Palestínu og kynnt okkur mál Palestínumanna og hvernig aðbúnaður þar er. Eftir þá heimsókn er mér, og ég held öllum, ljóst að ekki næst friður á þessu svæði fyrr en gengið verður það hart að Ísraelsmönnum að þeir brjóti niður þann aðskilnaðarmúr sem þeir halda áfram að reisa. Að þeir fari í burtu af hernámssvæðunum (Forseti hringir.) eða landnemasvæðunum og að þeir leggi af áætlanir um að hernema eða taka austurhluta (Forseti hringir.) Jerúsalem undir sína stjórn.