135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

orkusparnaður.

479. mál
[14:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ég er alveg sammála áherslunum sem koma fram í máli hans. Hv. þingmaður spyr um orkusparnað og orkunýtingu til skamms tíma en vekur líka eftirtekt á því að í þessu máli er nauðsynlegt að horfa langt fram í tímann.

Í fyrsta lagi vil ég segja það að hið almenn svar er já. Ég ætla að skýra fyrir honum stefnu ráðuneytisins í þessu máli. Í fyrsta lagi nefnir hann hönnun húsa. Ég vil þá upplýsa að nýr orkumálastjóri er sérfræðingur í orkusparnaði húsa og hefur verið falið að útfæra sérstaka stefnu um það. Það er komið af stað.

Í öðru lagi veltir hann fyrir sér möguleikum á að draga úr kostnaði vegna húshitunar með rafmagni hjá þeim sem borga allt of mikið og meira en allir aðrir. Þá nefni ég einkum þrennt: Í fyrsta lagi hefur þessi ríkisstjórn ákveðið að verja 200 millj. kr. til jarðhitaleitar á næstu þremur árum.

Í öðru lagi hefur Orkustofnun verið falið að gera sérstakt átak til þess að kanna möguleika á notkun varmadælna þar sem ekki er hægt að finna hefðbundinn jarðhita en tækninni hefur fleygt fram á því sviði.

Í þriðja lagi nefni ég nú svo, af því það er lítið og krúttlegt verkefni, að á vegum ráðuneytisins er verið að kanna möguleika á svokölluðum spónaveitum sem byggjast á því að hita vatn með framleiðslu úr íslenskum orkuskógum, sem ég leyfi mér að kalla svo.

En svo ég snúi mér að því sem mér finnst mestu máli skipta og varðar framtíðina þá er það alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Við erum blessuð, íslenska þjóðin, með því að hafa hér gríðarlega hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku og mætum ekki 70%, eins og hv. þingmaður sagði, heldur 80% af orkuþörf okkar með henni. Vandamálin eru þessi 20% sem eftir eru. Það er skylda okkar bæði sem stjórnvalds og líka út á við gagnvart umheiminum að taka þátt í að þróa nýja orkugjafa og finna nýjar leiðir.

Mig langar svo, ef ég hef tíma, frú forseti, til þess að drepa hér örstutt á tíu atriðum sem eru í gangi og hafa verið í gangi af hálfu ráðuneytisins. Í fyrsta lagi hafa sérfræðingar þess nýlega birt grófa úttekt á möguleikum Íslendinga til þess að nýta innlenda orku í stað innflutts eldsneytis og ég bendi hv. þingmanni á heimasíðu ráðuneytisins um það.

Í öðru lagi er á þessu ári varið 220 millj. kr. í áframhaldandi þróun á vetnistækni og í framhaldi af tilraunum með vetnisknúna almenningsvagna eru nú á götum borgarinnar 13 vetnisbílar sem eru í tilraunaverkefni.

Í þriðja lagi hefur ráðuneytið ákveðið að beita sér fyrir þátttöku í þróun smárra og ódýrra vetnisstöðva fyrir bifreiðar sem búa til sitt eigið vetni. Ég vona að fyrirtækið sem þar er í fararbroddi eigi eftir að verða stórt útflutningsfyrirtæki á borð við Marel eða nafna minn Össur í útflutningi. Fyrsta stöðin af þessu er ráðgerð hér í vesturbæ Reykjavíkur.

Í fjórða lagi er það stefna ráðuneytisins að beita sér fyrir því að raf- og vetnisvæðing að minnsta kosti hluta bílaflotans verði undirbúin með því að slíkar litlar vetnisstöðvar verði nægilega margar hringinn í kringum landið til þess að hægt verði að aka hringinn á vetni. Fjöldaframleiðsla á vetnisbílum er talin leiða til þess að þeir verði samkeppnishæfir á næsta áratug.

Í fimmta lagi, af því að hv. þingmaður spyr um skip þá er ráðuneytið aðili að verkefni þar sem fyrsta vetnisknúna ljósavélin hefur verið sett í skip hér á landi.

Í sjötta lagi er ráðuneytið aðili að verkefni sem miðar að því að framleiða umtalsvert magn af lífeldsneyti úr heyi með nýjum aðferðum sem byggjast m.a. á íslenskri örverutækni, á fyrningum hvers árs en líka með því að rækta gras til framleiðslunnar. Þeir sem þarna eru í fararbroddi ætla sér stóra hluti í þessu. Við sjáum hvað úr því verður.

Í sjöunda lagi hafa stofnanir ráðuneytisins m.a. átt þátt í rannsóknum til þess að nýta þekkta ferla til að breyta koltvísýringi í metanól sem hægt er að nýta beint á bíla. Búið er að stofna um það íslenskt fyrirtæki. Hægt er að leiða þessa tækni lengra áfram yfir í að búa til dísil. Þetta er eitt af verkefnunum sem Nýsköpunarmiðstöðin starfar að.

Í áttunda lagi hefur ráðuneytið nýlega átt í viðræðum við fleiri en eitt fyrirtæki um að þróa ræktun þörunga úr heitu vatni sem fellur til við raforkuframleiðslu úr jarðhita. Eins og þingmenn vita þá er léleg nýting á slíkri orkuöflun, 10–12% í besta falli, með því er hægt að auka hana. Þar að auki er það skoðun mín að þörungaræktun með þessum hætti sé aðferð framtíðarinnar til þess að búa til lífeldsneyti og þar hafa Íslendingar einstaka möguleika til að margefla nýtingu á orku úr jarðhita, ekki síst affallsins sem ég nefndi.

Í níunda lagi er síðan hafin sérstök úttekt á möguleikum Íslendinga til að nota rafmagn beint á bíla og hvers konar skipulag, t.d. með hleðslu af opinberri hálfu að setja upp til að auðvelda landsmönnum notkun á því. Það er enginn annar en fyrrverandi formaður VG í Reykjavík sem hefur umsjón með því verkefni af hálfu ráðuneytisins.

Í tíunda lagi hefur ráðuneytið lýst sig reiðubúið til að taka þátt í verkefnum þar sem verið er að þróa tækni til þess að knýja skip með rafmagni. Vonir standa til þess að síðar á þessu ári leggi (Forseti hringir.) fyrsta skipið sem með þeim hætti er knúið, úr höfn á Íslandi.