135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

orkusparnaður.

479. mál
[14:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Af því minnst var hér á frumkvæði Framsóknarflokksins þá hef ég aldrei dregið dul á að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir beitti sér fyrir margvíslegum jákvæðum nýjungum í ráðuneytinu. Ég hef oft sagt að ég hafi tekið við alveg prýðilegu búi þar.

Til dæmis vil ég nefna það sérstaklega að hún beitti sér fyrir orkusparnaðarsetrinu á Akureyri þar sem eru snillingar sem m.a. gefa mönnum kost á því að reikna út hagkvæmustu bifreiðarnar og með hvaða hætti einstaklingar geta best lagt sitt litla lóð á vogarskálarnar.

Það sem skiptir máli í þessu er að Íslendingar noti sína sérstöðu. Hún felst í því að við eigum hér gnótt af rafmagni sem er ódýrt og sem fer lækkandi að raunvirði á meðan þróunin er alveg öfug erlendis. Það gerir það að verkum að við getum leyft okkur þann munað t.d. að horfa fram til þess að geta knúið bílaflota okkar í framtíðinni með vetni og rafmagni, ekki öðru hvoru heldur hvoru tveggja.

Ég held það skipti ákaflega miklu máli fyrir okkur að finna leiðir til þess að geta nýtt rafmagn til þess að knýja farartæki hér á landi, bæði bifreiðar og skip ef það er mögulegt.

Þá hlýtur að þurfa að koma til samspils lítils lands annars vegar og hins vegar stórra bílaframleiðenda. Þess vegna skiptir miklu máli að það takist að fjöldaframleiða bifreiðir sem ganga fyrir þessum orkuberum og orkugjöfum.

Ég tek sem dæmi skipin. Gríðarlega stór partur af okkar losun á CO 2 kemur frá þeim. Við þurfum að reyna að kanna leiðir til þess að knýja þau með öðrum hætti. Það er dálítið umhendis. Það þarf að hanna skipin alveg frá grunni með tilliti til þess ef menn ætla að nota vetni og rafmagn eða hvort tveggja.

Ég hef t.d. lýst því yfir í samstarfi sem er að hefjast milli Íslands, Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands og nokkurra fleiri ríkja sem mætti flest flokka undir eyríki, að eitt af stóru verkefnunum sem þessi ríki eiga að vinna að saman er einmitt að beita sér fyrir hönnun skipa (Forseti hringir.) sem eru knúin vetni. Framtíðin liggur í þessum orkugjöfum. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Við þurfum að horfa langt í þessum efnum.