135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

rannsóknaboranir í Gjástykki.

576. mál
[14:29]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Þuríður Backman veit líklegast þá er það hæstv. iðnaðarráðherra sem veitir rannsóknar- og nýtingarleyfin og stjórnsýsla þeirra er í iðnaðarráðuneytinu.

Ég skal nú samt gera heiðarlega tilraun til þess að svara spurningu þingmannsins en þó með þeim fyrirvara að í raun og veru er spurningunni beint til rangs ráðherra. (Gripið fram í: Nei.)

Leyfi til rannsóknaborunar var veitt af hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Jóni Sigurðssyni, þingmanni Framsóknarflokksins og fyrrverandi formanni þess flokks, 10. maí 2007 eða tveimur dögum fyrir síðustu alþingiskosningar. Svo mun vera að það gildir til 10. maí 2010 samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef. Mér hefur einnig verið sagt að Landsvirkjun ráðgeri að bora eina rannsóknaholu á þessu ári samkvæmt þessu leyfi.

Um þessar mundir hefur Skipulagsstofnun til umfjöllunar tilkynningu Landsvirkjunar um rannsóknaborun í Gjástykki vegna ákvörðunar um matsskyldu.

Þá er því við að bæta að ég ritaði hæstv. iðnaðarráðherra og iðnaðarráðuneytinu bréf 18. september 2007 þar sem grennslast var fyrir um ástæður þess að ekki hafi verið farið eftir þeirri verklagsreglu að leita umsagnar umhverfisráðuneytisins þegar leyfið var veitt í tíð síðustu ríkisstjórnar tveimur dögum fyrir kosningar.

Við þetta hefur umhverfisráðuneytið gert athugasemdir og það liggur alveg fyrir að þegar þetta var gert 10. maí 2007 var það í einhvers konar flýtimeðferð hjá þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra. Af einhverjum ástæðum var ekki farin sú venjubundna leið að fá umsögn frá umhverfisráðuneytinu. Því verður því miður ekki breytt eftir á en það er alveg ljóst af okkar hálfu í umhverfisráðuneytinu að hér var ekki farið eftir þeim reglum sem vanalega er unnið eftir.

Ég hef einnig gert grein fyrir þessum málavöxtum í bréfi til Landverndar sem skrifað var 15. apríl síðastliðinn en þar var sérstaklega spurt um Gjástykki og rannsóknarleyfisveitinguna frá því 10. maí 2007.

Í raun er það svo, herra forseti, hvað rannsóknarleyfið varðar og veitingu þess að málið var afgreitt frá iðnaðarráðuneytinu þó að það sé algjörlega ljóst af minni hálfu að það hafi ekki verið gert með þeim hætti sem það hefði átt að vera þann 10. maí árið 2007.