135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

rannsóknaboranir í Gjástykki.

576. mál
[14:34]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það var auðvitað hreinasta hneyksli og jaðraði við valdníðslu að veita rannsóknarleyfi í Gjástykki tveimur dögum fyrir kosningar síðastliðið vor. Hér er upplýst að sú gjörð orkar í rauninni enn meira tvímælis en áður hefur komið fram opinberlega vegna þess að þar var ekki sinnt réttum verklagsreglum sem eru þær að leita eftir umsögn frá umhverfisráðuneytinu. Ég get ekki sætt mig við það, hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar, að þetta sé eitt af þeim málum sem ekki verði breytt eftir á. Rannsóknarleyfið hefur sannarlega verið gefið út en það hefur ekki verið gefið út með réttum hætti.

Ég spyr: Hver á Landsvirkjun? Hver á fyrirtækið og hver stýrir fyrirtækinu sem ætlar sér að ráðast inn á Gjástykki í sumar til að eyðileggja það með einni rannsóknaborholu og það löngu áður en fullreynt er hvort hægt er að ná í nægilega orku til framkvæmda annars staðar (Forseti hringir.) fyrir norðan? Hver á Landsvirkjun? Og ég endurtek: Var ekki Samfylkingin nýlega að skipa fulltrúa sína í stjórn þessa fyrirtækis? (Forseti hringir.) Það er hægt að breyta svona hlutum eftir á ef vilji er fyrir hendi.